Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Köfnunarefnisdíoxíð

Í stórum þéttbýliskjörnum getur styrkur köfnunarefnisoxíða nálgast mörkin þar sem áhrifa á heilsu manna fer að gæta. Köfnunarefnisdíoxíð (NO2) ertir lungu manna og dýra og meðal annars er talið að langvarandi álag á lungu af völdum NO2 geti valdið lungnaskemmdum síðar á ævinni. Enn fremur getur hár styrkur köfnunarefnisoxíða orsakað plöntuskemmdir.

Mengun af völdum köfnunarefnisoxíða er algengt vandamál. Upptök hennar eru í iðnaði, orkuverum og frá bílaumferð. Við bruna bæði í bílvélum og í brennslustöðvum, myndast köfnunarefnismónoxíð (NO) þegar köfnunarefni og súrefni hvarfast saman við hátt hitastig. Í andrúmsloftinu oxast köfnunarefnismónoxíð smám saman yfir í köfnunarefnisdíoxíð (NO2). Reglulegar mælingar á styrk NO2 í þéttbýlislofti voru víðast hvar ekki hafnar fyrr en í lok níunda áratugarins, en líklegt er að styrkurinn hafi hækkað mikið fram að því vegna mikillar aukningar í bílaumferð. Köfnunarefnisdíoxíð frá iðnaði hefur einnig aukist sumstaðar á síðustu áratugum.

Í bæjarfélögum sem umkringd eru fjöllum geta verður af og til hitahvarf, þannig að endurnýjun loftsins verður sérlega dræm. Við slíkar kringumstæður getur styrkur mengunar orðið mjög hár. Engar mælingar eru til frá slíkum bæjarfélögum á Íslandi, en í norskum bæjum eins og Tromsö og Mo í Rana verður styrkur köfnunarefnisdíoxíðs af og til mjög mikill og langt yfir viðmiðunarmörkum.

Köfnunarefnisoxíð á Íslandi

Vegna legu Reykjavíkur við hafið og hve vindasamt er þar, er meðalstyrkur köfnunarefnisdíoxíðs sjaldan meiri en 20 µg/m3 á veturna. En þegar logn er á veturna getur myndast mjög greinilegt slör af menguðu lofti yfir borginni og þá fer magn köfnunarefnisdíoxíðs á sólarhring stundum yfir viðmiðunarmörkin sem eru 75 µg/m3.

Fiskiskipaflotinn einn er valdur að meira en þremur fjórðu hlutum af þeirri losun köfnunarefnisoxíða sem vitað er um á Íslandi. Andrúmsloft við fjölfarnar hafnir getur þá í veðurstillum orðið nokkuð mengað.

Tenglar: