Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Klóruð paraffín

Klóruð paraffín (e. chlorinated paraffins, CPs) er samheiti fyrir stóran flokk efna sem hafa verið framleidd síðan um 1930. Algengasta notkun þeirra er sem mýkiefni í plasti og málningu og sem eldtefjandi efni í gúmmí, málningu og textíl.

Hvar er líklegt að finna þau?

  • Rafgeymum
  • Textíl
  • Leikföngum úr mjúku plasti
  • Hlutum úr plasti, einkum PVC
  • Vínyl gólfefnum
  • Hlutum úr gúmmíi
  • Málningu
  • Þéttiefnum
  • Rafstrengjum
  • Byggingarefnum
  • Lími
  • Ryki

Hvernig komast þau inn í líkamann?

  • Í gegnum meltingarveginn
  • Með innöndun 
  • Í gegnum fylgjuna til fósturs

Hvernig geta þau haft áhrif á heilsu?

  • Truflað starfsemi skjaldkirtils
  • Skaðað lifur og nýru
  • Hægt á þroska ungabarna
  • Haft áhrif á þroska heilans
  • Aukið líkur á krabbameini

Hvernig er hægt að draga úr útsetningu fyrir efnunum?

  • Velja umhverfismerktar vörur, t.a.m. merktar Svaninum eða Evrópublóminu.
  • Velja Oeko-Tex merktan textíl en þá er ekki farið yfir leyfileg viðmiðunarmörk hættulegra efna í vefnaði og framleiðslu hans.
  • Forðast leikföng úr mjúku plasti.
  • Takmarka notkun á plastvörum sem eru úr PVC plasti (plasttegund nr. 3).
  • Ryksuga og þurrka af a.m.k. 1 sinni í viku þar sem efnin eiga það til að loða við ryk.

Nánari umfjöllun um klóruð paraffín

Klóruð paraffín (e. chlorinated paraffins, CPs) er samheiti fyrir stóran flokk efna. Þeim má skipta í þrjá meginundirhópa eftir lengd kolefniskeðjunnar og teljast þá hafa stutta (e. short-chain CPs (SCCPs), C10-C13), miðlungslanga (e. medium-chain CPs (MCCPs), C14-C17) eða langa (e. long-chain CPs (LCCPs), C18-C28) keðju. Algengt er að nota blöndu af efnunum í hluti en ekki einungis eitt efni úr hópnum.

Efnin eru notuð aðallega sem eldtefjandi efni í plasti, gúmmíi og textíl og einnig sem mýkiefni í plasti, einkum pólývínýlklóríð plasti (e. PVC, plasttegund nr. 3), og málningu. Algengt er að klóruðum paraffínum sé bætt í textíl við framleiðslu til að hrinda frá vatni og öðrum efnum og einnig sem fúavörn. Þau geta hins vegar sloppið út í umhverfið við framleiðslu, notkun og úreldingu, t.a.m. í landfyllingum, við bruna úrgangs og í seyru.

Bæði SCCP og MCCP hóparnir eru skilgreindir sem þrávirk efni sem safnast fyrir í lífverum og eru eitruð (e. persistent, bioaccumulative and toxic substances, PBTs). Að auki eru þeir báðir flokkaðir sem hættulegir fyrir vatnsumhverfi (Bráð eit. á vatn 1 og Langv. eit. á vatn 1). SCCP eru nú í mati hjá Efnastofnun Evrópu (e. ECHA) sem mögulegir krabbameinsvaldar en búið er að meta flokkinn sem þrávirk lífræn efni (e. persistent organic pollutants, POPs). Erfitt hefur reynst að efnagreina og meta efnin og því skortir enn frekari þekkingu varðandi áhrif flestra efnanna á heilsu fólks og umhverfis. Bæði Efnastofnun Evrópu og Matvælaöryggisstofnun Evrópu (e. EFSA) hafa kallað eftir frekari upplýsingum og rannsóknum á efnunum.

Ákveðið hefur verið að takmarka klóruð paraffín eftir kolefnislengd. Byrjað var að takmarka SCCP vegna útbreiðslu og mikillar framleiðslu. Samþykkt var að setja flokkinn inn í Stokkhólmssamninginn um þrávirk lífræn efni til að stöðva notkun hans og framleiðslu. Innan EES er bannað að framleiða, markaðssetja eða nota SCCP efni nema þau komi fyrir sem óviljandi snefilefni í styrk sem er lægri en 1% af heildarþyngd vöru eða styrk lægri en 0,15% af þyngd efnablöndu (I. viðauki, POPs; Umhverfisstofnun). Að auki er flokkurinn bannaður í öllum snyrtivörum (reglugerð nr. 577/2013 um snyrtivörur sem innleiðir reglugerð (EB) nr. 1223/2009 með sama heiti, sjá II. viðauka, Umhverfisstofnun).

Eftir að byrjað var að takmarka SCCP fóru framleiðendur að skipta efnunum sem tilheyra flokknum út fyrir efni sem tilheyra MCCP. Efnastofnun Evrópu hefur lagt til við framkvæmdarstjórn ESB að takmarka notkun MCCP og er hægt að fylgjast með þeirri vinnu hér. Að auki er vinna hafin við að koma MCCP inn í Stokkhólmssamninginn og er hægt að fylgjast með þeirri framvindu hér. Enn sem komið er skortir þekkingu á LCCP og því er notkun efnanna í þeim flokki ekki takmörkuð innan EES.

 

Ítarleg umfjöllun hjá systurstofnunum og öðrum alþjóðastofnunum

Almennt um klóruð paraffín á norsku á heimasíðu Miljøstatus sem er ritstýrt af Umhverfisstofnun Noregs (Miljødirektoratet).

Áhættumat á klóruðum paraffínum á ensku á heimasíðu Matvælaöryggisstofnun Evrópu (e. EFSA).

Skýrsla um áhættugreiningu á stuttkeðju klóruðum paraffínum á ensku sem birt er á heimasíðu Efnastofnunar Evrópu (e. ECHA).

 

Efnisinnihald þessarar síðu var síðast uppfært 11. janúar 2024.