Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Gæðaþættir og ástandsflokkun

Samkvæmt lögum um stjórn vatnamála eiga öll yfirborðsvatnshlot (strandsjór, straumvötn, stöðuvötn og árósarvötn) að vera í að minnsta kosti góðu vistfræðilegu og efnafræðilegu ástandi og öll grunnvatnshlot eiga að hafa góða magnstöðu og vera í góðu efnafræðilegu ástandi.

Öll vatnshlot eiga að ná þeim umhverfismarkmiðum sem hafa verið sett fyrir þau, til dæmis ef að yfirborðsvatnshlot hefur þau umhverfismarkmið að vera í mjög góðu vistfræðilegu ástandi, þá má ástand þess ekki rýrna í gott vistfræðilegt ástand.

Þegar gæðaþættir hafa verið vaktaðir þá er gögnum skilað í skilagátt Umhverfis- og orkustofnunar. Niðurstöðurnar eru notaðar til ástandsmeta og flokka vatnshlot.

Gæðaþættir yfirborðsvatnshlota

Með vistfræðilegu ástandi yfirborðsvatnshlota er átt við ástand eftirfarandi þátta:

  • Líffræðilegra
  • Efna- og eðlisefnafræðilegra
  • Vatnsformfræðilegra

Breytingar á þessum gæðaþáttum eru bornar saman við það ástand sem búist er við í vatni við náttúrulegar og ómengaðar aðstæður (viðmiðunaraðstæður).

Til þess að finna út hvert ástand vatnshlota er hafa verið skilgreindir gæðaþættir fyrir hvern vatnahóp og búið til ástandsflokkunarkerfi fyrir hverja gerð vatnshlota.

Í töflunni hér að neðan er yfirlit yfir þá gæðaþætti sem á að vakta til að meta vistfræðilegt og efnafræðilegt ástand yfirborðsvatnshlota.

Flokkunarkerfi fyrir vatnsformfræðilega gæðaþætti er í vinnslu fyrir næstu vatnaáætlun sem tekur í gildi árið 2028.

Þegar kemur að því að meta áhrif framkvæmdar/starfsemi á vatnshlot þá þarf að skoða alla þá gæðaþætti sem koma fram í reglugerð nr. 535/2011. Þar með talið vatnsformfræðilega gæðaþætti, óháð því hvort flokkunarkerfi til að ástandsmeta vatnshlotið sé til.

Það eiga ekki allir gæðaþættir við í hverju tilfelli og því má sleppa þeim þegar svo ber undir. Það ætti þó alltaf að rökstyðja af hverju einhver gæðaþáttur á ekki við og verður ekki vaktaður, til dæmis í áhrifamati.

Gæðaþættir grunnvatnshlota

Gæðaþættir sem notaðir eru til að meta efnafræðilegt ástand grunnvatnshlota eru leiðni og styrkur mengunarvalda. Einnig er horft til þátta eins og innstreymi salts vatns og efnafræðilegrar samsetningu grunnvatns.

Magnstaða grunnvatns er metin á þann hátt að hæð vatnsborðs í grunnvatnshlotinu skal vera þannig að meðalvatnstaka á ári til langs tíma er ekki meiri en grunnvatnsauðlindin sem er tiltæk. Jafnframt skal vatnstaka eða breytingar á vatnshæð ekki hafa neikvæð áhrif á tengd yfirborðsvatnshlot eða þurrlendisvistkerfi. Breytingar á stefnu grunnvatnsstreymis af mannavöldum, sem stafa af vatnsborðsbreytingum sem geta átt sér stað tímabundið, mega auk þess ekki leiða til innskots saltvatns eða annarskonar innskots

Ástandsflokkunarkerfi

Vatnshlot eru ástandsflokkuð út frá tölulegum upplýsingum um náttúrulegt ástand með tilliti til þeirra gæðaþátta sem skilgreindir hafa verið fyrir vatnshlotið. Niðurstöður á ástandsflokkun vatnshlots eru settar fram sem staðlað gildi, svokallað vistfræðilegt gæðahlutfall (e. Ecological quality ratio, EQR). Vistfræðilegt gæðahlutfall endurspeglar hlutfallið milli mældra tölulegra gilda (matsþátta) fyrir ákveðinn gæðaþátt og skilgreinds viðmiðunargildis fyrir viðkomandi gæðaþátt.

Ástandsflokkunarkerfið er unnið í samræmi við ákvæði í reglugerð nr. 535/2011 um flokkun vatnshlota, eiginleika þeirra, álagsgreiningu og vöktun.

Ástandsflokkun yfirborðsvatnshlota

Ástand yfirborðsvatnshlota er metið út frá vistfræðilegu og efnafræðilegu ástandi.

  • Vistfræðilegt ástand byggir á líffræðilegum, efna- og eðlisefnafræðilegum og vatnsformfræðilegum gæðaþáttum. Ástandsflokkarnir eru fimm talsins; mjög gott, gott, ekki viðunandi, slakt og lélegt vistfræðilegt ástand.
  • Efnafræðilegt ástand byggir á því hvort til staðar séu forgangsefni í of háum styrk. Við mat á efnafræðilegu ástandi eru eingöngu notaðir tveir flokkar þ.e. efnafræðilegt ástand er gott eða nær ekki góðu efnafræðilegu ástandi.

Yfirborðsvatnshlotum er skipt í vatnagerðir en þær eiga að endurspegla mismunandi eiginlega yfirborðsvatns. Flokkun í vatnagerðir er nauðsynlegt til að geta skilgreint og metið ástand yfirborðsvatnshlotanna. Fyrir hverja vatnagerð eru því sett sérstök viðmið fyrir gæðaþætti sem segja til um ástand yfirborðsvatnshlotanna innan vatnagerðarinnar.

Ástandsflokkun grunnvatnshlota

Ástandsflokkunarkerfi fyrir grunnvatn er annarskonar en fyrir yfirborðsvatn en þar skal meta efnafræðilegt ástand og magnstöðu.

  • Efnafræðilegt ástand grunnvatnsins er metið á tvo vegu, þ.e. að þau séu annaðhvort í góðu efnafræðilegu ástandi eða nái ekki góðu efnafræðilegu ástandi.
  • Magnstaða grunnvatns flokkast einnig á tvo vegu, annað hvort í góða magnstöðu grunnvatns eða slaka magnstöðu grunnvatns.

Mæliþátturinn sem er notaður til að meta magnstöðu eru breytingar á hæð grunnvatnsborðs.