Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Vöktun og ástand vatns

Með vatnaáætlun 2022–2027 fylgir vöktunaráætlun.

Vöktun er mikilvægur liður í því að fylgjast með og staðfesta ástand vatnshlota. Vöktun á Íslandi er tvenns konar:

  • Vöktun á vegum stjórnvalda þar sem verið er að vakta náttúrulegt ástand vatnshlota til að byggja upp ástandsflokkunarkerfið.
  • Vöktun sem þeir sem valda álagi á vatn eru ábyrgir fyrir s.s. fyrirtæki, sveitarfélög og önnur starfsemi.

Samkvæmt lögunum má ástand vatnshlota ekki hnigna, hvorki tímabundið né varanlega.

Vöktun er því afar mikilvæg til að geta sagt til um ástand vatnshlota og til að fylgjast með áhrifum á vatn frá starfsemi eða framkvæmdum. Hér er um algera ófrávíkjanlega reglu að ræða, vatnshlot þurfa að ná þeim umhverfismarkmiðum sem hafa verið sett fyrir þau.

Vöktunaraðferðir

Vöktunaraðferðum er skipt í þrjá flokka eftir því hvað þarf að skoða á hverjum stað:

  • Aðgerðavöktun er sett í þeim tilfellum þar sem vatnshlot eru metin í hættu á að ná ekki umhverfismarkmiðum og fara þarf í úrbætur til að bæta úr ástandinu eða til að afla frekari upplýsinga til að staðfesta ástand. 
  • Yfirlitsvöktun er notuð í þeim tilgangi að fá upplýsingar um grunnástand vatnshlota.
  • Rannsóknarvöktun er beitt til að vakta tiltekin efni eða gæðaþætti sem grunur liggur á að valdi því að vatnshlot uppfylli ekki umhverfismarkmið.

Tíðni vöktunar

Tíðni vöktunar er síðan breytileg eftir því hvaða vöktun verið er að framkvæma. Tíðni vöktunar er til dæmis mun þéttari í tilfelli aðgerðarvöktunar samanborið við yfirlitsvöktun. Jafnframt getur tíðni og umfang vöktunar verið breytileg eftir því hvert umfang þess álags sem framkvæmdin/starfsemin er.