Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Úrgangur frá alþjóðlegum flutningstækjum

Leiðbeiningar við túlkun á reglugerð nr. 1069/2009/EB (innleidd með reglugerð nr. 674/2017)

Leiðbeiningar þessar eru gefnar út af Umhverfisstofnun og Matvælastofnun og byggja á skilyrðum reglugerðar Evrópuþingsins og -ráðsins EB nr. 1069/2009 um heilbrigðisreglur að því er varðar aukaafurðir úr dýrum og afleiddar afurðir sem ekki eru ætlaðar til manneldis og um niðurfellingu á reglugerð (EB) nr. 1774/2002 (reglugerð um aukaafurðir úr dýrum). Reglugerðin var innleidd með reglugerð nr. 674/2017.

  Markmið leiðbeininganna er að skýra í hvaða tilfellum endurnýta má úrgang af dýrauppruna frá flutningstækjum í alþjóðlegri umferð og í hvaða tilfellum farga verði úrgangi af dýrauppruna frá þeim án endurnýtingar.

Hingað til hefur verið litið á allan eldhúsúrgang frá flutningstækjum á ferð til og frá Íslandi sem alþjóðlegan eldhúsúrgang. Nú telst eldhúsúrgangur frá flutningstækjum sem koma frá ríkjum innan Evrópska efnahagssvæðisins ekki sem alþjóðlegur eldhúsúrgangur og er því almennt hæfur til endurvinnslu.

Í reglugerð nr. 1069/2009/EB eru lagðar fram heilbrigðisreglur að því er varðar aukaafurðir úr dýrum og afleiddar afurðir sem ekki eru ætlaðar til manneldis, en þar undir heyrir m.a. úrgangur af dýrauppruna sem kemur frá flutningstækjum í alþjóðlegri umferð. Í reglugerðinni eru lagðar sérstakar kvaðir á meðhöndlun eldhúsúrgangs frá flutningatækjum í alþjóðlegri umferð (e. international catering waste). Slíkur úrgangur flokkast sem efni í 1. flokki sem þarf að farga með brennslu eða urðun í samræmi við 12. grein reglugerðarinnar.

Flutningstæki í alþjóðlegri umferð eru þau flutningstæki sem ferðast á milli Íslands og svæða utan evrópska efnahagssvæðisins, svokallaðra þriðju ríkja. Þar sem Ísland er EFTA ríki er það hluti af markaði evrópska efnahagssvæðisins og flutningar vöru á milli þeirra og Íslands teljast ekki sem alþjóðlegur flutningur í því samhengi sem reglugerðin kveður á um. Úrgangur frá flutningstækjum innan evrópska efnahagssvæðisins er því endurnýtanlegur á Íslandi.

Alþjóðlegur eldhúsúrgangur í skilningi  8. greinar (f) er allur sá úrgangur frá flutningstækjum í alþjóðlegri umferð sem inniheldur matvæli eða úrgang sem komist hefur í snertingu við matvæli úr dýraríkinu. Að öllu jöfnu þarf að brenna eða urða allan alþjóðlegan eldhúsúrgang samkvæmt 12. grein reglugerðar nr. 1069/2009/EB. Ef alþjóðlegur eldhúsúrgangur blandast saman við annan úrgang þarf einnig að brenna eða urða þann úrgang.

 Matvæli úr dýraríkinu og umbúðir sem hafa verið í snertingu við þau og verða að úrgangi í flutningstæki í alþjóðlegri umferð, teljast að öllu jöfnu til alþjóðlegs eldhúsúrgangs. Hægt er að komast hjá því að eldhúsúrgangur verði að alþjóðlegum eldhúsúrgangi um borð í flutningstæki í alþjóðlegri umferð með því að halda úrgangsstraumum aðskildum. Sem dæmi gæti íslenskt flutningstæki aðeins boðið upp á matvörur frá evrópska efnahagssvæðinu og haldið þeim eldhúsúrgangi aðskildum frá öðrum úrgangi flutningstækisins. Þessi leið er háð því að í flutningstækinu séu sannanlega leiðir til að halda úrgangsstraumunum aðskildum og að ekki komi til sérstök smithætta vegna eldhúsúrgangsins umfram annan sambærilegan eldhúsúrgang.

  Ef flokka á úrgang frá flutningstækjum í alþjóðlegri umferð er mikilvægt að það sé gert á þann hátt að ekki sé hætta á að úrgangur smitist af dýraafurðum. Matvælastofnun er eftirlitsaðili þegar kemur að flutningi dýraafurða milli landa og mun undantekningarlaust gera kröfu um að unnið sé eftir skýrum og sannanlegum verkferlum þegar kemur að flokkun úrgangs frá flutningstækjum í alþjóðlegri umferð.