Stök frétt

Umhverfisstofnun hefur móttekið umsókn frá ORF Líftækni hf. um leyfi til tilraunaræktunar utanhúss á erfðabreyttu byggi (Hordeum vulgare) á Klauf í Eyjafrjarðarsveit. 

Starfsemin sem hér um ræðir fellur undir lög um erfðabreyttar lífverur nr. 18/1996 og reglugerð nr. 728/2011 um sleppingu eða dreifingu og markaðssetningu erfðabreyttra lífvera.

Í umsókninni kemur fram að ráðgert er að rækta mismunandi yrki af erfðabreyttu byggi í tilraunaskyni til að kanna tjáningu á markpróteinum þeirra auk almennra ræktunareiginleika yrkjanna, s.s. spírun, vöxt, sjúkdómaþol, þroska og uppskerumagn á hverja ræktunareiningu. Tekið er fram að byggplöntur eru sjálffrjóvgandi og geta því ekki kynblandast öðrum yrkjum eða skyldum tegundum. Er því ekki talin neinn möguleiki á genaflutningi milli erfðabreyttra byggplantna og villtra plantna í nágrenni ræktunarreita. Ræktunarreitur verður í a.m.k. 50 metra fjarlægð frá öðrum byggökrum sem kynnu að vera í nágrenninu.

ORF Líftækni hf. hefur áður fengið leyfi Umhverfisstofnunar til dreifingar og sleppingar á erfðabreyttum plöntum í Gunnarsholti árin en síðasta leyfið var síðast gefið út árið 2021 og heimilaði útiræktun til lok árs 2025.

Umhverfisstofnun mun leita umsagna um umsóknina frá ráðgjafanefnd um erfðabreyttar lífverur, sbr. reglugerð nr. 68/1998, og Náttúrufræðistofnun Íslands skv. 4. gr. reglugerðar nr. 782/2011.

Er hér gefinn kostur á að koma að athugasemdum um ofangreinda umsókn til útiræktunar á erfðabreyttu byggi. Frestur til að skila slíkum athugasemdum er til lok dags 19.maí eða 30 dagar frá birtingu fréttar. Merkja skal umsagnir UST202401-451.

Umhverfisstofnun skal hafa samráð við almenning og hagsmunaaðila um alla þætti hinnar fyrirhuguðu útiræktun erfðabreyttra plantna skv. 9. gr. reglugerðar 728/2011 áður en ákvörðun um útgáfu leyfisins er tekin.

Útdráttur úr umsókn