Stök frétt

Umhverfisstofnun hefur unnið tillögu að nýju starfsleyfi fyrir Samherja fiskeldi ehf. til framleiðslu á allt að 3.000 tonnum af laxi og/eða bleikju að Núpsmýri í Öxarfirði. Núverandi starfsleyfi er til framleiðslu á 1.600 tonnum af sandhverfu, lúðu, laxi og bleikju. Tillagan ásamt umsókn rekstraraðila verður aðgengileg á vefsíðu Umhverfisstofnunar á tímabilinu 26. nóvember til og með 27. desember 2018 og gefst á þeim tíma tækifæri til að koma með athugasemdir áður en ákvörðun um útgáfu starfsleyfisins verður tekin.

Skipulagsstofnun mat það svo að framkvæmdin væri ekki háð mati á umhverfisáhrifum þann 9. júní 2017. Í niðurstöðu stofnunarinnar kemur fram að aukningin sé ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif sbr. viðmið í viðauka 3 í lögum um mat á umhverfisáhrifum. Umhverfisstofnun sendi inn umsögn þann 23. mars 2017 og 16. maí 2017 vegna mats á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. 

Í áliti Skipulagsstofnunar kom fram að helstu neikvæðu umhverfisáhrif eldisins væru næringarefnalosun sem líklegt er að muni þynnast hratt í neðsta hluta Brunnár/Sandár og í sjó og því ekki líklegt að framkvæmdin muni hafa neikvæð áhrif á straumvötn eða lífríki þeirra. Umhverfisstofnun telur líkt og Skipulagsstofnun að áhrifin verði takmörkuð en jafnframt að með þeim hreinsibúnaði sem rekstaraðilinn notast við sé næringarefnalosun í viðtakan takmörkuð. Umhverfisstofnun er sammála niðurstöðu Skipulagsstofnunar og er það í samræmi við innsenda umsögn stofnunarinnar vegna framleiðsluaukningarinnar. 
Tillagan er auglýst samkvæmt gildandi aðalskipulagi Norðurþings þar sem deiliskipulag fyrir svæðið liggur ekki fyrir. 

Greinargerð mun fylgja starfsleyfi við útgáfu sbr. 6. gr. rg. nr. 550/2018.
Athugasemdir við tillöguna skulu vera skriflegar og sendar Umhverfisstofnun. Frestur til að skila inn athugasemdum er til og með 27. desember 2018.


Tengd skjöl:
Tillaga að starfsleyfi
Ákvörðun um matsskyldu
Aðalskipulag Norðurþings