Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Stök frétt

Höfundur myndar: Sorpa

Þann 21. ágúst síðastliðinn gaf Umhverfisstofnun út starfsleyfi fyrir starfsemi SORPU bs. í Álfsnesi, Reykjavík. Tillaga að starfsleyfinu var auglýst á tímabilinu 8. apríl - 5. ágúst 2014 og hélt Umhverfisstofnun jafnframt opinn kynningarfund um málið í Listasal Mosfellsbæjar í lok maí. 

Fundurinn var vel sóttur og sköpuðust líflegar umræður. Það sem brann heitast á fundarmönnum var lyktarmengun frá urðunarstaðnum og einnig áformaður gildistími starfsleyfisins til 16 ára en svo langur gildistími er ekki í takti við samkomulag sem eigendur SORPU gerðu síðastliðið haust um framtíð urðunarstaðarins. Farið var ítarlega yfir málin á fundinum og ástæður þess að Umhverfisstofnun taldi sig ekki geta tekið tillit til eigendasamkomulagsins við ákvörðun gildistímans. Kom þá fram sú hugmynd að SORPA hefði frumkvæði að því að sækja um styttri gildistíma en upphaflega var gert. SORPA brást vel hugmyndinni og breytti í kjölfarið starfsleyfisumsókn sinni að því er varðar gildistímann fyrir þann hluta starfsleyfisins sem snýr að rekstri urðunarstaðarins. Umhverfisstofnun telur lyktir málsins sýna hversu gagnlegir opnir kynningarfundir geta verið og vonar stofnunin að stytting á gildistíma starfsleyfis fyrir urðunarstaðinn stuðli að sátt um málið. 

Áður en Umhverfisstofnun barst beiðni SORPU um styttri gildistíma höfðu borist tvær skriflegar athugasemdir við starfsleyfistillöguna og sneru þær báðar að gildistímanum. Sem fyrr segir leystist það mál með breyttri starfsleyfisumsókn SORPU og gildistími urðunar í hinu nýja starfsleyfi því í takti við það sem farið var fram á í athugasemdunum. Í greinargerð Umhverfisstofnunar (linkur) er ítarlegri umfjöllun um athugasemdirnar sem bárust, afstöðu stofnunarinnar til þeirra og þær breytingar sem gerðar voru á starfsleyfinu frá auglýstri starfsleyfistillögu. 

Samkvæmt hinu nýja starfsleyfi er SORPU heimilt að taka á móti og urða allt að 120 þúsund tonn af úrgangi á ári, reka hreinsistöð fyrir hauggas auk birgðageymslu fyrir metan, gera tilraunir með endurnýtingu flokkaðs úrgangs og geyma úrgang sem bíður endurnýtingar eða nýttur verður á urðunarstaðnum. 

Almennur gildistími starfsleyfisins er til 21. ágúst 2030 en öll ákvæði þess er snúa að urðun hafa skemmri gildistíma, eða til 31. desember 2020. Eftirlit með starfseminni er í höndum Umhverfisstofnunar.