Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Öryggisblöð

Kröfur sem gilda um öryggisblöð koma fram í reglugerð (EB) nr. 1907/2006 um skráningu, mat, leyfisveitingu og takmarkanir, að því er varðar efni (REACH) sem innleidd er í reglugerð nr. 888/2015. Um öryggisblöð er rætt í 31. gr. og II. viðauka reglugerðar ESB.

ATHUGIÐ! II. viðauka við REACH hefur verið breytt og við breytinguna koma fram nýjar kröfur til öryggisblaða. Öll öryggisblöð þurfa að uppfylla nýju kröfurnar frá 1. janúar 2023. Lesið nánar um þetta HÉR.

Hér að neðan eru reglur varðandi öryggisblöð útlistaðar nánar. Einnig má finna á annarri síðu svör við algengum spurningum um öryggisblöð.

Efnisyfirlit

Tungumál og staðfærsla

Öryggisblöð skulu vera á íslensku eða ensku. Upplýsingar úr öryggisskýrslum um örugga notkun, sem fylgja í viðauka við öryggisblað, mega einnig vera á ensku.

Athugið að þrátt fyrir að öryggisblöð megi vera á ensku er mikilvægt að huga að staðfærslu þeirra. Þannig verður t.a.m. símanúmer Eitrunarmiðstöðvar Landspítala (543 2222) að koma fram undir lið 1.4.

Athugið! Þrátt fyrir að í 5. gr. reglugerðar nr. 888/2015 segi að öryggisblöð skuli vera á íslensku mega öryggisblöð nú vera á íslensku eða ensku skv. breytingu á efnalögum sem tók gildi 1. júlí 2019.

Afhending

Ef efni eða efnablanda uppfyllir ákveðnar viðmiðanir (t.d. hættuflokkuð og leyfisskyld efni) skal birgir efnisins/efnablöndunar sjá viðtakandanum fyrir öryggisblaði. Skv. REACH er viðtakandi efnis eða efnablöndu skilgreindur sem eftirnotandi eða dreifandi:

  • Eftirnotandi er sá sem notar efnið/efnablönduna við iðnaðarstarfsemi sína eða faglega starfsemi.
  • Dreifandi er einstaklingur eða lögaðili, þ.m.t. smásali, sem einungis geymir og setur efni á markað, eitt sér eða í efnablöndu, á vegum þriðja aðila.

Þetta þýðir að þegar efni eða efnablanda er seld til aðila sem ætlar að nota hana við iðnaðarstarfsemi/faglega starfsemi og/eða selja hana áfram í smásölu, þá skulu öryggisblöð fylgja með vörunni. Afhenda skal öryggisblaðið hverjum viðtakanda áður en eða á sama tíma og efnavaran sem blaðið fjallar um er afhent honum í fyrsta skipti. Ef um endurtekna pöntun er að ræða þarf ekki að afhenda öryggisblað í hvert skipti, nema breyting hafi orðið á því í millitíðinni. Öryggisblöð skulu afhent á pappírsformi eða rafrænt, án endurgjalds. Athugið að það eitt að öryggisblöð séu aðgengileg á vef telst ekki afhending.

Auk framangreindra reglna getur viðtakandi efnis í ákveðnum tilfellum beðið um öryggisblöð.

Öryggisblöð til almennings?

Ef eftirnotandi eða dreifandi fer ekki fram á það er ekki nauðsynlegt að láta öryggisblað fylgja hættulegum efnum eða efnablöndum, sem eru boðnar eða seldar almenningi, ef þeim fylgja nægilegar upplýsingar til að notendur geti gert nauðsynlegar ráðstafanir að því er varðar heilsuvernd, öryggi og umhverfisvernd.

Í slíkum tilfellum ættu merkingar á umbúðum efnavara að duga í flestum tilfellum en til eru dæmi um að útbúnar séu sérstakar leiðbeiningar um örugga notkun.

Snið og innihald

Upplýsingar í öryggisblöðum skulu vera nákvæmar, skiljanlegar og eiga sérstaklega við efnið/blönduna sem um ræðir (ekki vera almenns eðlis). Öryggisblöð skulu vera í samræmi við ákvæði II. viðauka við REACH-reglugerðina (nýjustu útgáfu hans má nálgast í reglugerð (ESB) 2020/878) og innihalda eftirtalda 16 liði auk undirliða sem útlistaðir eru í viðaukanum:

  1. Auðkenning efnisins eða blöndunnar og félagsins eða fyrirtækisins
  2. Hættugreining
  3. Samsetning innihaldsefna/upplýsingar um innihaldsefni
  4. Ráðstafanir í skyndihjálp
  5. Ráðstafanir vegna slökkviaðgerða
  6. Öryggisráðstafanir fyrir fólk, hlífðarbúnaður og neyðarráðstafanir
  7. Meðhöndlun og geymsla
  8. Váhrifavarnir/persónuhlífar
  9. Eðlis- og efnafræðilegir eiginleikar
  10. Stöðugleiki og hvarfgirni
  11. Eiturefnafræðilegar upplýsingar
  12. Vistfræðilegar upplýsingar
  13. Förgun
  14. Upplýsingar um flutninga
  15. Upplýsingar varðandi regluverk
  16. Aðrar upplýsingar

Á öryggisblöðum mega ekki vera auðir undirliðir. Útgáfudagur eða dagsetning endurskoðunar skal koma fram á fyrstu síðu öryggisblaðanna. Allar blaðsíður skulu vera númeraðar.

Uppfærsla

Birgjar skulu uppfæra öryggisblöð án tafar þegar:

  • Nýjar upplýsingar verða aðgengilegar sem varða hætturnar sem stafa af efninu/blöndunni eða þær ráðstafanir sem þarf að gera til að stýra áhættu við notkun
  • Þegar markaðsleyfi hefur verið veitt eða því hafnað fyrir efni í vörunni
  • Þegar settar hafa verið takmarkanir sem varða efni í vörunni

Birgjar skulu afhenda öllum, sem þeir hafa látið vöruna í té á síðustu 12 mánuðum, uppfærð eða endurskoðuð öryggisblöð. Á öllum uppfærðum/endurskoðuðum öryggisblöðum skulu koma fram upplýsingar um dagsetningu uppfærslunnar/endurskoðunarinnar og tilgreina skal með skýrum hætti allar upplýsingar sem hefur verið bætt við, eytt eða sem hafa verið endurkoðaðar (upplýsingar um þetta má t.a.m. setja undir 16. lið öryggisblaðsins - Aðrar upplýsingar).

Öryggisblöð sem eru uppfærð eftir að skráningu innihaldsefna er lokið skulu innihalda upplýsingar um skráningarnúmer efnanna.

Efnaöryggisskýrsla - váhrifasviðsmyndir

Ef efni/efnavara eru framleidd eða flutt inn á Evrópska efnahagssvæðið í meira magni en 10 tonn á ári skal skráningaraðilinn gera efnaöryggisskýrslu en í henni eru skráðar niðurstöður úr sérstöku efnaöryggismati. Styrkur efna í efnablöndu þarf að ná ákveðnu marki til að þetta ákvæði gildi í samræmi við 2. mgr. 14. gr. í reglugerð (EB) nr. 1907/2006.

Efnaöryggismat felur í sér:

  • mat á hættu fyrir heilbrigði manna,
  • eðlisefnafræðilegt hættumat,
  • mat á hættu fyrir umhverfið,
  • mat á þrávirkni, uppsöfnun í lífverum og eiturhrifum (PBT) efna og
  • mat á mikilli þrávirkni og mikilli uppsöfnun efna (vPvB) í lífverum.

Ef skráningaraðilinn kemst að því, eftir ofangreint mat, að efnið uppfylli viðmiðanirnar þannig að það flokkist sem hættulegt eða er metið sem PBT-efni eða vPvB-efni þá skal gera mat á áhrifum, þ.m.t. gerð váhrifasviðsmyndar (e. exposure scenario) og áhættulýsingu sem nær til allrar tilgreindrar notkunar skráningaraðilans.

Ef eftirnotandi efnis uppfyllir ekki þau skilyrði sem lýst er í váhrifasviðsmynd efnis/efnablöndu, skal hann taka saman eigin efnaöryggisskýrslu nema hann falli undir einhverjar af undanþágunum sem koma fram í 4. mgr. 37. gr. í reglugerð (EB) nr. 1907/2006. Athugið að eftirnotendur eru þeir sem nota efnið/efnablönduna í atvinnuskyni.

Allir aðilar í aðfangakeðjunni sem er skylt að taka saman öryggisskýrslu skulu láta viðeigandi váhrifasviðsmyndir fylgja í viðauka við öryggisblaðið, sem tekur til tilgreindrar notkunar. Þannig er safnað saman upplýsingum um hugsanlega áhættu efnis/efnablöndu og örugga notkun og hún gerð aðgengileg í aðfangakeðjunni.