Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Stök frétt

Á Íslandi þarf fræðslu um mikilvægi þess að umgangast vatn af virðingu og nægjusemi / Mynd: Canva

Þann 22. mars ár hvert halda Sameinuðu þjóðirnar upp á Alþjóðlegan dag vatnsins. Í ár er þema dagsins „Vatn fyrir frið“ (e. Water for Peace).

Skortur á vatni ógn um allan heim

Aðeins um 0,5% af vatni á jörðinni er aðgengilegt og drykkjarhæft. Um helmingur jarðarbúa býr við vatnsskort einhvern hluta ársins. Þessi dýrmætasta auðlind jarðar fer minnkandi með hverju árinu og eiga loftslagsbreytingar stærstan þátt í þessari hnignun. Á sama tíma fjölgar jarðarbúum og samfélög breytast svo að ásælni í vatn eykst sífellt. Þessar breytingar munu hafa miklar áskoranir í för með sér hvað varðar framboð á matvælum enda er talið að rúmlega 70% af öllu aðgengilegu ferskvatni sé að meðaltali notað í landbúnaði.

Stríð og friður um vatn

Aðgangi að ferskvatni er mjög misskipt innan landsvæða og á milli landa á jörðinni. Þegar vatnsauðlindin fer þverrandi hvað varðar magn og gæði getur ágreiningur aukist um þá dropa sem eftir eru til skiptanna. Vatn spilar því oft veigamikinn þátt í deilum og ófriði, ýmist í upphafi þeirra en yfirráð yfir vatni geta einnig verið nýtt sem tól í hernaði.
Vatn getur einnig verið hluti af friðarumleitunum. Í mannkynssögunni eru mun fleiri dæmi um samvinnu en ágreining hvað varðar vatn þó að ljóst sé að þar megi margt bæta. Samstarf innan landsvæða og á milli landa sem leiðir til réttlátrar skiptingar vatnsauðlindarinnar getur verið fræið sem stuðlar að stöðugleika og friði og verið hvati að sjálfbærri þróun.

Samvinna um vatn er lykilatriði

Í ár snýr Alþjóðlegur dagur vatnsins að því að leggja áherslu á jákvæða samvinnu er varðar vatn og nýtingu þess milli svæða og mismunandi geira samfélagsins. Aukin samvinna um vatn mun flýta framfylgd margra Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna, og þar með auka matvælaöryggi, viðhalda betri lífskjörum og heilbrigðari vistkerfum, byggja upp viðnám gegn loftslagsbreytingum, minnka áhættu vegna hamfara og stuðla að sameiningu og friði.

Aukin samkeppni um vatn á Íslandi

Hér á Íslandi þurfum við ekki að semja við aðrar þjóðir um aðgang að ferskvatni eins og mörg önnur lönd þurfa að gera og aðgengi að vatni almennt verið nokkuð gott. Síðustu ár hefur þó álag vegna vatnsnotkunar og vatnstöku vegna aukins fólksfjölda og aukinnar nýtingar vatns fyrir ýmiskonar iðnað aukið álag á vatnsauðlindina. Þessi staða kallar á auknar rannsóknir, mælingar og vöktun á auðlindinni svo hægt sé að grípa inn í ef álag verður of mikið.

Að auki hafa loftslagsbreytingar nú þegar haft áhrif á vatnsbúskapinn og frekari breytinga er að vænta í framtíðinni. Ljóst er að á sumum landsvæðum er minna vatn til skiptanna en áhugi er á að nýta, auk þess sem ágreiningur getur verið um nýtingu þess.

Breytt viðhorf til vatns

Vegna þeirra hugmynda sem ríkt hafa á Íslandi um að hreint vatn sé ótæmandi auðlind eigum við enn nokkuð í land hvað varðar viðhorf til sóunar og mengunar vatns.

Nauðsynlegt er að vinna saman að því að breyta þessu og fá sem flesta geira samfélagsins og almenning til að taka þátt í þessari vegferð. Fræða þarf almenning og alla hagsmunaaðila um mikilvægi þess að umgangast vatn af virðingu og nægjusemi og hafa sjálfbæra nýtingu vatnsauðlindarinnar í fyrirrúmi. Lög um stjórn vatnamála eru þar mikilvægt verkfæri enda markmið þeirra að tryggja vernd og sjálfbærni vatns í samstarfi og samráði við alla hagaðila.

Heildræn framtíðarsýn

Á degi vatnsins þar sem meginþemað er „Vatn fyrir frið“ áréttar Íslenska vatnafræðinefndin nauðsyn þess að friður ríki um skipulag og nýtingu vatnsauðlindarinnar og til þess að ná því markmiði sé æskilegt að heildræn framtíðarsýn sé sett fram með aðkomu sem flestra hagsmunaðila.

Íslenska vatnafræðinefndin fer með alþjóðasamstarf á sviði vatnafræði innan vébanda UNESCO og er skipuð fulltrúum frá helstu stofnunum og hagaðilum sem tengjast vatni á einn eða annan hátt:

  • Hafrannsóknastofnun
  • Háskóli Íslands
  • Íslenska vatnafræðifélagið
  • Landsvirkjun
  • Orkustofnun
  • Samband íslenskra sveitarfélaga
  • Umhverfisstofnun
  • Veðurstofa Íslands

 

Tengt efni: