Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Stök frétt

Frá 20. júní til 15. september frá kl. 8 - 15 þarf að bóka bílastæði í Landmannalaugum / Mynd: Canva

Umhverfisstofnun mun taka upp bókunarkerfi fyrir bílastæði í Landmannalaugum fyrir sumarið 2024. Þá verður nauðsynlegt að bóka bílastæði fyrir komu á svæðið og greiða fyrir það þjónustugjald. 
 
Fyrirkomulagið verður í gildi frá 20. júní til 15. september, alla daga vikunnar.

Á þeim tíma þurfa allir gestir sem ætla að koma til Landmannalauga á eigin vegum á einkabíl eða bílaleigubíl á milli kl. 8 og 15 að bóka bílastæði fyrirfram. 
 
Stefnt er að því að opna fyrir bókanir um miðjan mars. Tilkynnt verður nánar um fyrirkomulag þess þegar nær dregur.

Fjöldi bókana sem verða í boði á degi hverjum fyrir einkabíla stýrist af fjölda bílastæða á svæðinu. Sérstakt rútustæði er á svæðinu. Rútur og aðrir ferðaþjónustuaðilar þurfa ekki að bóka fyrirfram í sumar, en munu þó þurfa að greiða þjónustugjald ef komið er inn á svæðið á milli kl. 8 og 15. 

Þetta á einungis við bílastæði við Landmannalaugar sjálfar og hefur því engin áhrif á umferð innan friðlands að Fjallabaki. 

Þjónustugjald

Þjónustugjald miðast við gjaldskrá Umhverfisstofnunar, en veittur er 40% afsláttur í ár. Gjaldið fyrir sumarið 2024 eftirfarandi: 

Fjöldi sæta í bíl   Verð 
 1-5 450 kr 
 6-9 600 kr 
 10-18 1200 kr 
 19-32 2400 kr
 33-64 4500 kr 

Inngrip nauðsynlegt til að draga úr álagi vegna bílaumferðar

 
Gripið er til þessarar álagsstýringar til að draga úr umferðarteppum og öngþveiti sem myndast á ákveðnum tíma dags á aðkomuleið og bílastæðum við Landmannalaugar á sumrin. 

Að meðaltali komu rúmlega 300 bílar á dag að Landmannalaugum sumarið 2023. 

Álagið leiðir til þess að bílastæði eru orðin full flesta daga fyrir hádegi og eru það fram eftir degi. Gestir neyðast því til að leggja á vegöxlum og utan vega og út fyrir stæðin sem veldur álagi á viðkvæmt umhverfið. Bílum er lagt á svo til öllum mögulegum blettum meðfram veginum inn að Landmannalaugum sem veldur tilheyrandi þrengslum og umferðarhnútum. Það skapar jafnframt hættu á mjóum vegi. 

Bílastæðið norðan við ána Námskvísl fyllist fljótt og þá neyðast gestir oft til að fara yfir árnar við skálasvæðið á vanbúnum bílum og lenda þar í vandræðum. 

Aðgerðin er því fyrst og fremst nauðsynleg til að draga úr álagi á umhverfi Landmannalauga. Án inngrips er viðbúið að vandinn muni einungis vaxa enn frekar á komandi árum, enda er spáð 10-15% árlegri fjölgun ferðamanna til landsins.

Bætt upplifun gesta

Það er von Umhverfisstofnunar að þessi aðgerð bæti upplifun og ánægju þeirra sem heimsækja þessa einstöku náttúruperlu. Gestir eiga ekki að þurfa að sitja fastir í umferðarteppu á hálendi Íslands.  

Landmannalaugar er stórbrotið svæði innan friðlands að Fjallabaki sem var friðlýst árið 1979.  Megin einkenni svæðisins eru fjölbreytt landslag og landslagsheildir, mikill breytileiki jarðminja og jarðhitafyrirbæra, sérstakt en viðkvæmt lífríki, víðerni, kyrrð og litadýrð. Svæðið verður sífellt vinsælla meðal ferðamanna en kannanir hafa sýnt að ánægja gesta á svæðinu hefur fallið á undanförnum árum. 

Með þessu mun einnig skapast meiri kyrrð í Landmannalaugum, þar sem draga mun úr hljóðmengun og rykmyndun á svæðinu á þeim tíma dags sem flestir eru á svæðinu.

 

Tengt efni: