Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Stök frétt

Mynd: Glenn Carstens Peters - Unsplash

Í dag tekur gildi ný reglugerð um skráningarskyldan atvinnurekstur samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir. Reglugerðin kveður á um skráningu tiltekins atvinnurekstrar í miðlæga rafræna gátt í stað starfsleyfisskyldu.  

Markmið reglugerðarinnar er að bæta viðmót, einfalda aðgengi að stjórnsýslu og auka skilvirkni. Reglugerðin er í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar um rafræna stjórnsýslu. 

Reglugerðin gildir um 47 atvinnugreinar. Dæmi um starfsemi sem fellur hér undir eru bifreiða- og vélaverkstæði, flugeldasýningar, hársnyrtistofur, meindýravarnir, nuddstofur, niðurrif mannvirkja, steypueiningarverksmiðjur og efnalaugar.  

Viðkomandi heilbrigðisnefnd fer með eftirlit með skráningarskyldum atvinnurekstri, þ. á m. að starfsemi sé rétt skráð.  

Með reglugerðinni er rekstraraðila skráningarskylds atvinnurekstrar skylt að skrá starfsemi sína á Ísland.is áður en starfsemin hefst. Viðkomandi heilbrigðisnefnd hefur síðan að jafnaði fimm daga til að fara yfir skráninguna til staðfestingar eða synjunar.  

Þeir aðilar sem eru með gildandi starfsleyfi þurfa ekki að skrá starfsemina sína heldur færast þeir sjálfkrafa yfir í skráningu. Þeir sem færast yfir í skráningu eru hvattir til að lesa ný skilyrði sem eiga við um starfsemina. 

Umhverfisstofnun mun halda kynningarfund um reglugerðina og umsóknarferlið þriðjudaginn 29. nóvember kl. 10:00 – 11:00. Fundurinn verður haldinn á Teams. 
Öll velkomin. Hlekkur á streymi


Reglugerð nr. 830/2022 um skráningarskyldan atvinnurekstur 

Skilyrði fyrir skráningarskylda starfsemi