Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Stök frétt

Mynd: För eftir akstur utan vega í Reykjanesfólkvangi.

Umhverfisstofnun hefur fengið ítrekaðar ábendingar eða orðið vitni að akstri bifreiða og torfærutækja (s.s. mótorkrosshjóla, fjórhjóla og buggy-bíla) utan vega við Vigdísarvallaleið og í nágrenni Kleifarvatns.  

Flest atvikin snúa að akstri mótorkrosshjóla. Slíkur akstur hefur haft veruleg áhrif á ásýnd landsins og valdið umtalsverðum náttúruspjöllum. Með ítrekuðum akstri upp brattar brekkur og fjallshryggi hafa víða myndast breiðir og áberandi slóðar sem setja mikið mark á landslagið. 

Skilti og merkingar um að akstur sé ekki heimilaður utan vega á svæðinu eru ítrekað virtar að vettugi og skilti jafnvel felld niður. Þetta ólöglega athæfi veldur miklum skemmdum á gróðurfari og jarðminjum á svæðinu, ásamt því að hafa veruleg áhrif á upplifun annarra sem um svæðið fara til að njóta útivistar í annars óspilltri náttúrunni.  

Svæðið sem um ræðir er friðlýst sem Reykjanesfólkvangur. Meginmarkmið fólkvanga er að tryggja landsvæði til útivistar og almenningsnota. Innan fólkvangsins eru fjölmargar merkilegar jarðminjar, t.d. mosavaxin nútímahraun, gígaraðir og hellasvæði.  

Í gegnum svæðið liggja tveir vegir; Krýsuvíkurleið og Vigdísarvallaleið og frá þeim liggja nokkrir styttri, afmarkaðir og merktir afleggjarar. Akstur vélknúinna ökutækja utan þessara vega er ólöglegur samkvæmt 31. grein náttúruverndarlaga. Ekki er heimilt að aka á gönguleiðum svæðisins eða eftir þeim slóðum sem akstur torfærutækjanna hefur myndað.  

Umhverfisstofnun vill jafnframt benda á að nokkur akstursíþróttasvæði eru skilgreind á suðvesturhorni landsins. 

Meðfylgjandi myndir voru teknar við Vigdísarvalalleið og í Breiðdal, norður af Kleifarvatni, af starfsfólki Umhverfisstofnunar í október og september. 

Umhverfisstofnun tekur við ábendingum um akstur utan vega og kemur þeim til lögreglu ef tilefni þykir til. Hægt að senda stofnuninni nafnlausar ábendingar

Göngum vel um náttúru landsins – ábyrg umgengni gefur öllum kostum á að njóta óspilltrar náttúru um ókomin ár! 

 

Höfundur mynda: Umhverfisstofnun.

 

Tengt efni: