Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Stök frétt

Mynd: Eldgos á Reykjanesi vorið 2021 / Ael Kermarec

Eldgos er hafið að nýju á Reykjanesi. Umhverfisstofnun vill ítreka að allur akstur utan vega, þ.m.t. á slóðum og stígum,  er óheimill skv. 31. gr. laga um náttúruvernd nr. 60/2013.

Allur akstur að gosstöðvunum er því ólöglegur utan vega akstur hvort sem um er að ræða bíla, mótorhjól eða önnur vélknúin ökutæki nema viðkomandi hafi tilhlýtandi undanþágu frá banninu skv. 31. gr. náttúruverndarlaga.

Undanþágur frá banninu snúa m.a. að björgunarstörfum, lögreglustörfum og rannsóknum. Umhverfisstofnun er heimilt að veita undanþágur frá banninu ef nauðsyn krefur vegna m.a. kvikmyndatöku, enda sé ekki unnt að vinna viðkomandi störf á annan hátt.

Varðandi undanþágur frá banni við akstri utan vega við gosstöðvarnar, þá mun Umhverfisstofnun meta hvort og þá hvar unnt sé að veita undanþágur frá banninu í samráði við almannavarnir, lögreglu, björgunarsveitina og landeigendur.