Stök frétt

Í byrjun vikunnar var vafasamt met því sem næst slegið. Þá fundust alls 934 blautklútar í fjörunni í Bakkavík á Seltjarnarnesi þegar starfsmenn Umhverfisstofnunar tíndu þar rusl vegna vöktunar rusls á ströndum. Aðeins einu sinni áður hafa blautklútarnir verið fleiri í einni ferð síðan vöktunin hófst, en það var í júlí 2019 þegar blautklútarnir voru alls 977. Því viljum við ítreka að klósettið er EKKI ruslafata og að í það á einungis að fara piss, kúkur og klósettpappír: Sjá klosettvinir.is.

Vöktunin í fjörunni í Bakkavík felur í sér að tína allt rusl á 100 m kafla, fjórum sinnum á ári. Auk blautklúta og annars úrgangs sem berst með skólpi í sjóinn, s.s. eyrnapinnar og dömubindi, finnst þar mest af ýmiss konar plasthlutum.

Ruslið er flokkað eftir staðlaðri aðferðafræði og er tilgangurinn vöktunarinnar að:

  • Finna uppruna rusls á ströndum
  • Skoða hvaða flokkar rusls safnast mest fyrir
  • Meta magn sem safnast fyrir yfir ákveðið tímabil
  • Fjarlægja ruslið

Meira um vöktun stranda.