Stök frétt

Mynd: Sigríður Kristinsdóttir og Kristín Kröyer.

Tveir starfsmenn Umhverfisstofnunar hafa sinnt mikilvægu eftirliti og ráðgjöf við hreinsunarstarf vegna olíulekans á Suðureyri. Um níu þúsund lítrar af olíu láku úr tanki við kyndistöð Orkubús Vestfjarða.

Minni mengun í jarðvegi

Kristín Kröyer, sérfræðingur í teymi mengunareftirlits, hefur fylgst með hreinsunaraðgerðum í kringum uppruna lekans við Orkubúið. „Það var lán í óláni að olían fór beint í drenlögn og mengaði jarðveginn ekki eins og óttast var“ segir Kristín. Olían lak úr tankinum í gegnum drenlögn og rör, í nálæga tjörn og þaðan út í höfn. 

Aðgerðastjórn við höfnina

Sigríður Kristinsdóttir, teymisstjóri mengunareftirlits, hefur aðstoðað hafnarstjóra við að stýra aðgerðum til þess að hefta mengun í höfninni og ná olíunni upp. Til þess hafa m.a. verið notuð olíuupptökutæki úr eigu Umhverfisstofnunar, annað slíkt tæki, ísogspulsur og ísogsmottur frá Olíudreifingu. 

Hreinsa næturstað æðarfugla

Nú er verið er að skola niður grjótgarð í höfninni en beðið er eftir stórstreymi í næstu viku svo unnt verði að hreinsa svæðið betur. Áhersla er einnig lögð á að hreinsa svæði sem er næturstaður æðarfugla. „Annars er það bara að fylgjast grannt með og bíða eftir stórstreyminu“ segir Sigríður. 

Mynd: Olía úr olíutanki við kyndistöð Orkubús Vestfjarða á Suðureyri lak í nálæga tjörn og niður í höfnina. 

Stuttur viðbragðstími

Umhverfisstofnun barst tilkynning um olíulekann um síðustu helgi. Sigríður og Kristín komnar vestur strax á mánudag. 

Umhverfisstofnun starfar í umboði Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða og hafnarstjóra á svæðinu. Mjög gott samstarf hefur verið meðal þeirra sem koma að verkefninu. 

Umhverfisstofnun hefur yfirumsjón með bráðamengun hafs og stranda og mengunaróhöppum almennt á landinu í heild. Sjá nánar

Mynd: Uppruni lekans var í olíutanki við kyndistöð Orkubús Vestfjarða.

 

 

Mynd: Olíuupptökutæki er notað við hreinsun á sjónum við Suðureyri.