Stök frétt

Ástand á 43% áfangastaða innan friðlýstra svæða er metið mjög gott. Áfangastöðum í hættu hefur fækkað milli ára. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu um ástand áfangastaða innan friðlýstra svæða árið 2021.

Ástandsmatið er sameiginlegt verkefni Umhverfisstofnunar, Vatnajökulsþjóðgarðs og Þjóðgarðsins á Þingvöllum. 

Gott ástand á tæplega helmingi áfangastaða

Af 148 áfangastöðum sem voru metnir árið 2021 fengu 43% einkunn yfir 8 af 10 mögulegum. Það eru áfangastaðir sem geta vel tekið á móti gestum án neikvæðra áhrifa á umhverfið. 

Svæðum í góðu ástandi fjölgaði úr 60 í 64. 

Árið 2020 fjölgaði svæðum í góðu ástandi verulega. Það tengist að miklu leyti fækkun ferðamanna. Búast má við að ástand svæðanna versni aftur ef ferðamönnum fjölgar án þess að innviðir verði byggðir upp. 

Skoða lista yfir áfangastaði sem standa vel.  

Vel heppnuð uppbygging innan þjóðgarðanna 

Nánast allir  áfangastaðir innan Þjóðgarðsins Snæfellsjökuls, Vatnajökulsþjóðgarðs og Þjóðgarðsins á Þingvöllum komu  mjög vel út. Er það til merkis um vel heppnaða uppbyggingu innviða og gott skipulag á svæðunum. 

Höfum vakandi auga með viðkvæmum svæðum

Áfangastöðum sem metnir eru í hættu hefur fækkað um tvo milli ára.

Undanfarin ár hefur verið unnið markvisst með Landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum á svæðunum. Landvarsla á friðlýstum svæðum gegnir einnig lykilhlutverki í stýringu, eftirliti, viðhaldi og fræðslu sem fyrirbyggir að ástand þeirra fari versnandi.

Svæðin sem komu verst út árið 2021 eru:

  • Stútur og Suðurnámur innan friðlands að Fjallabaki
  • Námuvegur innan Vatnajökulsþjóðgarðs
  • Vigdísarvellir í Reykjanesfólkvangi

Gripið hefur verið til aðgerða og á sumum svæðanna eru lagfæringar þegar hafnar.

Mikilvægt er að hafa vakandi auga með viðkvæmum svæðum því ástand þeirra getur versnað hratt.

Skoða lista yfir áfangastaði í hættu.

Ástandsmat mikilvægt verkfæri

Umhverfisstofnun hefur nú unnið ástandsmat á áfangastöðum innan friðlýstra svæða undanfarin fimm ár. Verkfærið gagnast vel við að vernda íslenska náttúru fyrir ágangi og forgangsraða úrbótum innan hvers svæðis fyrir sig.

Með því að fylgjast markvisst með þróun og ástandi á áfangastöðum er hægt að grípa inn í áður en til óefna kemur. Stofnunin vinnur samkvæmt því og leggur sérstaka áherslu á að bæta þau svæði sem koma illa út úr matinu.

Systurstofnanir Umhverfisstofnunar, Vatnajökulsþjóðgarður og Þjóðgarðurinn á Þingvöllum hafa tekið þátt í verkefninu og metið áfangastaði innan sinna svæða. Ástandsskýrslan er samstarfsverkefni stofnananna. Hún veitir upplýsingar um ástand áfangastaða innan allra þjóðgarða á Íslandi sem og flestra annarra friðlýstra svæða. 

Skoða skýrsluna:

 

Mynd: Ljósmyndarar nýta góða aðstöðu við Hraunfossa í Borgarfirði. 

 

Tengt efni: