Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Stök frétt

Mynd: Tim Foster, Unsplash

Losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi dróst saman um 2% milli áranna 2018 og 2019 og er það mesti samdráttur sem mælst hefur frá árinu 2012. Heildarlosun á Íslandi (án landnotkunar og skógræktar) árið 2019 nam 4.722 kílótonnum af CO2-ígildum. Það jafngildir 8% samdrætti frá árinu 2005 og 28% aukningu frá árinu 1990. Sú aukning er mestmegnis vegna aukinnar málmbræðslu með tilkomu frekari stóriðju á fyrsta áratug aldarinnar.
Árlegri skýrslu Umhverfisstofnunar um losun gróðurhúsalofttegunda var skilað til ESB og Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna (UNFCCC) 15. apríl 2021, í samræmi við skuldbindingar Íslands í loftslagsmálum.  
 
Í skýrslunni kemur fram að meginbreytingar í losun milli 2018 og 2019 voru:

  • aukning frá kælimiðlum (44 kt CO2-íg, eða +27%)
  • aukning frá jarðvarmavirkjunum (7 kt CO2-íg, eða +5%)
  • samdráttur frá fiskiskipum (-30 kt CO2-íg, eða -5,4%), 
  • samdráttur frá urðun úrgangs (-30 kt CO2-íg, eða -16%), 
  • samdráttur frá vegasamgöngum (-19 kt CO2-íg, eða -2,0%)
  • samdráttur frá nytjajarðvegi (-19 kt CO2-íg, eða -2,0%)
  • samdráttur frá málmframleiðslu (EU ETS) (-40 kt CO2-íg, eða -2,1%)


Losun sem fellur undir beina ábyrgð Íslands 
Losun gróðurhúsalofttegunda sem telst á beinni ábyrgð Íslands (heildarlosun án LULUCF og ETS) dróst saman um 2% milli áranna 2018-2019, og nam 2.883 kt CO2-íg árið 2019.
Þetta er mesti samdráttur sem hefur verið milli ára síðan 2012. Markmið Íslands í þessum flokki er að ná 29% samdrætti í losun árið 2030 miðað við 2005. Losun þessi hefur dregist saman um 8% árið 2019 miðað við árið 2005. Þess ber að geta að markmið um 29% samdrátt sem fellur undir beina ábyrgð Íslands er tilkomið vegna sameiginlegs markmiðs Íslands, Noregs og ESB um að ná 40% samdrætti í losun fyrir árið 2030 miðað við 1990, en það markmið hefur verið hækkað í 55% innan ESB sem krefst endurskoðunar markmiða einstakra hlutaðeigandi ríkja.



Mynd 1. Losun sem fellur undir beina ábyrgð Íslands 2005-2019 (kt CO2-ígildi).


Losun á beinni ábyrgð Íslands sem fjallað er um hér fyrir ofan er sú losun sem íslensk stjórnvöld munu þurfa að gera upp gagnvart Evrópusambandinu, bæði fyrir annað skuldbindingatímabil Kýótóbókunarinnar (2013-2020) og skuldbindingatímabil Parísarsamkomulagsins (2021-2030). Evrópusambandið mun síðan gera upp losun aðildaríkjanna sem og hlutaðeigandi EFTA ríkja, þ.e. Íslands og Noregs í heild gagnvart Rammasamningi Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (UNFCCC). Þá tekur Ísland einnig þátt í þeim aðgerðum Evrópusambandsins sem snúa að samdrætti í losun frá stóriðju í gegnum evrópska viðskiptakerfið með losunarheimildir (ETS).

Helstu uppsprettur losunar sem falla undir beina ábyrgð Íslands árið 2019 eru vegasamgöngur (33%), olíunotkun á fiskiskipum (18%), iðragerjun (10%), nytjajarðvegur (8%), losun frá kælimiðlum (F-gös) (7%) og losun frá urðunarstöðum (6%). Hlutfallslosun frá mismunandi uppsprettum má sjá á mynd 2 en allar uppsprettur sem telja minna en 3% af losun á beinni ábyrgð Íslands voru settar inn í flokkinn annað (9%). 


Mynd 2. Hlutfallsleg skipting losunar sem fellur undir beina ábyrgð Íslands árið 2019.

Samdrátt í losun mátti helst rekja til vegasamgangna, fiskiskipa, landbúnaðar og urðunar úrgangs. Losun frá vegasamgöngum dróst saman um 2% eða um 19kt CO2-íg milli áranna 2018 og 2019 og er það í fyrsta skipti sem sjá má samdrátt í þessum flokki síðan 2014.

Umhverfisstofnun gerði bráðabirgðagreiningu á þessum samdrætti í samstarfi við Hagstofu Íslands sem bendir til þess að um um 1/3 samdráttarins frá vegasamgöngum sé vegna innlendra aðila en um 2/3 sé vegna fækkunar ferðamanna á milli áranna 2018 og 2019. Losun frá landbúnaði dróst saman um 13kt CO2-íg vegna færri húsdýra en losun vegna urðunar dróst saman um 30 kt CO2-íg og er það aðallega vegna aukinnar metansöfnunar á Íslandi. Losun frá fiskiskipum dróst saman um 30 kt CO2-íg, en það má rekja til minni olíunotkunar.

Neikvæða þróun mátti helst merkja í losun frá kælimiðlum þar sem aukning í losun nam 44 kt. Einnig varð nokkur aukning í losun frá jarðvarmavirkjunum eða um 7 kt milli áranna 2018-2019.
Þess ber að geta að losun frá kælimiðlum á sér stað nokkrum árum eftir innflutning efnanna og er þessi aukning ekki endurspeglun á núverandi aðgerðir í loftslagsmálum sem snerta kælimiðla.
Samkvæmt greiningum Umhverfisstofnunar eru töluverðar líkur á því að hámark losunar frá kælimiðlum hafi náðst árið 2019 vegna aðgerða í málaflokknum og ráðgert er að losun muni minnka umtalsvert mikið fram til ársins 2030. Þá er einnig vert að nefna að þrátt fyrir að losun frá jarðvarmavirkjunum hafi aukist vegna breyttra framleiðsluskilyrða er mikil þróun í málaflokknum sem snertir endurnýtingu sem og niðurdælingu á koldíoxíði með Carbfixaðferðinni.


Bráðabirgðaniðurstöðum skeikar eingöngu um 1%
Árið 2020 skilaði Umhverfistofnun bráðabirgðaniðurstöðum fyrir árið á undan fyrr en áður hefur verið unnt. Nú þegar endanlegri Landsskýrslu um losun gróðurhúsalofttegunda fyrir árið 2019 hefur verið skilað til ESB og Loftslagssamnings SÞ sést að bráðabirgðaniðurstöðum Umhverfisstofnunar skeikaði aðeins um 1%. Bráðabirgðaniðurstöðurnar gáfu því nokkuð skýra mynd af losun ársins 2019. Ráðgert er að skila bráðabirgðaniðurstöðum fyrir árið 2020 á sumarmánuðum 2021.

Losun og binding vegna landnotkunar, breyttrar landnotkunar og skógræktar (LULUCF)
Losun gróðurhúsalofttegunda vegna landnotkunar er ekki talin með innan beinna skuldbindinga ríkja á sama hátt og til dæmis losun frá vegasamgögnum. Frá 1990 hefur losun frá LULUCF aukist um 3,1% en á sama tímabili hefur binding koldíoxíðs farið vaxandi. Mjög jákvæða þróun má merkja í bindingu í skóglendi en hún jókst um 10,7% milli 2018 og 2019 og hefur nú náð sögulegu hámarki á tímabilinu 1990 -2019. Árleg binding í skógrækt árið 2019 var 446 kt CO2-íg en til samanburðar var samanlögð losun frá urðun úrgangs, jarðvarmavirkjunum ásamt vélum og tækjum 418 kt CO2-íg.


Mynd 3. Losun og binding sem fellur undir LULUCF 1990-2019 (kt CO2-ígildi).

Ítarlegri upplýsingar um losun Íslands má finna í skýrslu Umhverfisstofnunar (National Inventory Report - NIR) um losun gróðurhúsalofttegunda til loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna (UNFCCC).
Í skýrslunni er að finna upplýsingar um þróun losunar gróðurhúsalofttegunda á Íslandi frá 1990 til 2019, ásamt lýsingu á aðferðafræðinni sem notuð er til að meta losunina. Í skýrslunni koma einnig fram nánari upplýsingar um losun og bindingu frá landnotkun, breyttri landnotkun og skógrækt (LULUCF), sem og losun frá alþjóðaflugi og alþjóðasiglingum en sú losun telst ekki til tölulegra skuldbindinga Íslands í loftslagsmálum.

Skýrsluna má nálgast á heimasíðu Umhverfisstofnunar ásamt samantekt á helstu niðurstöðum á íslensku. Þar má einnig finna svör við algengum spurningum um innihald skýrslunnar ásamt aragrúa upplýsinga á gagnvirku formi, m.a. um samantekt á losun gróðurhúsalofttegunda, skuldbindingar í loftslagsmálum, uppsprettur losunarinnar eftir geirum o.fl. Umhverfisstofnun hvetur alla til að skoða heimasíðuna til að fá betri sýn á stöðu Íslands í loftslagsmálum.