Stök frétt

Mynd: Haraldur Hugosson - Unsplash

Umhverfisstofnun hefur gefið út  Vöktunaráætlun fyrir Þingvallavatn 2019 - 2024 og er vöktun skv henni þegar hafin. Áætlunin byggir á ákvæðum laga um stjórn vatnamála en markmið laganna er m.a. að vernda vatn og vistkerfi þess, hindra frekari rýrnun vatnsgæða og bæta ástand vatnavistkerfa til þess að vatn njóti heildstæðrar verndar.

Vöktun Þingvallavatns er ætlað að veita góða yfirsýn yfir ástand vatnsins hverju sinni. Eiginleikar vatnsins eru nokkuð vel þekktir því að ýmiskonar vöktun og rannsóknir hafa verið stundaðar í vatninu um árabil en það er verndað skv. lögum nr. 85 um verndun Þingvallavatns og vatnasviðs þess. Lífríki vatnsins er afar sérstakt, m.a. eru þar tvær einlendar krabbategundir. Vistkerfi þess er viðkvæmt, sérstaklega gagnvart íkomu köfnunarefnis (N).Vatnið og umhverfi þess hefur mikið aðdráttarafl á ferðamenn og brýnt er að standa vörð um hreinleika þess.

Vöktunin skv. áætluninni beinist að næringarefnum, svifþörungum, botnhryggleysingjum, vatnaplöntum, fiskum, stöðu vatnsborðs og ýmis konar efnamælingum. Niðurstöður vöktunarinnar verða notaðar til að meta vistfræðilegt og efnafræðilegt ástand vatnsins. Þær eru einnig hafðar til hliðsjónar við ákvörðun aðgerða sem ráðast þyrfti í til að standa vörð um ástand vatnsins. Náttúrufræðistofa Kópavogs og Hafrannsóknastofnun munu annast vöktunina.

Vöktunaráætlunin fyrir Þingvallavatn er hluti vöktunaráætlunar fyrir landið allt en sú áætlun er nú í almennri kynningu ásamt vatnaáætlun, aðgerðaáætlun og umhverfisskýrslu. Hægt er að skoða þessar áætlanir og skýrslu á vatn.is. Frestur til að senda inn ábendingar og athugasemdir við vatnaáætlun er til og með 15. júní 2021.

Beinir hlekkir á þessi plögg eru hér fyrir neðan:

Vatnaáætlun
Aðgerðaáætlun
Vöktunaráætlun
Umhverfisskýrsla