Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur.

Stök frétt


Nýr og uppfærður gátlisti Grænna skrefa hefur nú verið kynntur til leiks.  

Fyrir þá sem ekki þekkja til  Grænna skrefa þá eru þau verkefni fyrir ríkisstofnanir og fyrirtæki í meirihlutaeigu ríkisins til að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum af starfsemi sinni og efla umhverfisvitund starfsmanna. Nú þegar eru 117 stofnanir og fyrirtæki í meirihluta eigu ríkisins skráð en stefnt er að því að allir ríkisaðilar séu skráðir og hafi innleitt Græn skref til fulls í sitt starf fyrir árslok 2021.  

Í skrefunum er farið í gegnum fimm skref sem hvert um sig inniheldur 30 – 40 aðgerðir til að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum af skrifstofustarfsemi og öðru sem henni tengist – það eru þessar aðgerðir sem nú hafa verið uppfærðar. Þó hið formlega ferli sé hugsað fyrir stofnanir er um að gera fyrir aðra starfsemi svo sem fyrirtæki, skóla og aðra sem vilja gera vel í umhverfismálum að nýta sér listann og skoða hvort ekki megi framkvæma aðgerðir skrefanna í sínu starfi.  

Það kennir ýmissa grasa í nýju skrefunum en nokkrar aðgerðir voru teknar út, sumar tóku minniháttar breytingum og svo má einnig finna splunkunýjar aðgerðir. Nýju Grænu skrefin samræmast betur skyldu ríkisaðila til að setja sér loftslagsstefnu ásamt því að leggja aukna áherslu á samgöngumál. Þar að auki hefur flokkinum Eldhús og kaffistofur verið bætt við. Metnaðurinn hefur því aukist í samræmi við auknar væntingar almennings til stofnana og fyrirtækja í meirihlutaeigu ríkisins á sviði umhverfismála. 

Nánar má lesa um nýju Grænu skrefin á vefsíðunni graenskref.is auk þess sem hægt er að sækja þar allskonar umhverfisvænan innblástur fyrir vinnustaði.