Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Stök frétt

Umhverfisstofnun hefur staðið fyrir sýnatökum í vatni í þeim tilgangi að kortleggja útbreiðslu efna sem talin eru ógn við vatnaumhverfi í Evrópu. Sýni voru tekin í hafinu við Klettagarða, í Tjörninni í Reykjavík og í Kópavogslæk. Um er að ræða efni sem eru á sérstökum vaktlista Evrópusambandsins og hefur m.a. að geyma lyfjaleifar, kynhormón og varnarefni. Að auki var kannað hvort hér á landi fyndust lyfjaleifar sem eru á sérstökum vaktlista í Svíþjóð.

Helstu niðurstöður mælinganna eru að í sýnunum var að finna þrjú efni af 16 á vaktlista Evrópusambandsins. Efnin sem um ræðir eru Ciprofloxacin og Diclofenac sem eru efni sem finnast í sýkla- og bólgueyðandi lyfjum. Að auki fannst kynhormónið Estrógen í öllum sýnunum sem voru tekin. Engin varnarefni (skordýra- eða plöntuvarnarefni) af listanum var að finna í íslensku sýnunum.

Af þeim efnum sem eru á sænska vaktlistanum fundust 9 efni í mælanlegum styrk. Um er að ræða efni sem finnast m.a. í geðlyfjum, hjarta- og blóðþrýstingslyfjum, sýklalyfjum og lyfjum sem tekin eru við sveppasýkingum og kynsjúkdómum. Nokkrar tegundir lyfjaleifa var að finna í mælanlegum styrk bæði í Kópavogslæk og í Tjörninni í Reykjavík.

Þetta er í annað skipti sem Umhverfisstofnun framkvæmir þessa skimun á lyfjaleifum og varnarefnum en árið 2018 voru tekin sýni á þremur stöðum á landinu; í sjónum við Klettagarða, í Varmá neðan við Hveragerði og við Reykjahlíð á Mývatni. Þá fundust fjögur efni af þeim sextán efnum sem eru á vaktlistanum auk 15 lyfjaleifa af sænska listanum.

Umhverfisstofnun mun halda áfram skimunum í samræmi við vaktlista Evrópusambandsins og bendir á mikilvægi þess að skila inn til apóteka öllum lyfjaafgöngum sem falla til á heimilum til að tryggja rétta förgun þeirra.