Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Stök frétt

Brugghúsið Segull 67 hlaut í dag Bláskelina, nýja viðurkenningu umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, fyrir framúrskarandi plastlausa lausn. Umhverfisráðherra veitti viðurkenninguna um leið og hann setti átaksverkefnið Plastlausan september í Ráðhúsi Reykjavíkur.

Niðurstaða dómnefndar er að sú lausn Seguls 67 að nýta bjórkippuhringi úr lífrænum efnum í stað plasts sé framúrskarandi. Í rökstuðningi nefndarinnar kemur fram að hún hefði lagt áherslu á að lausnin hefði möguleika á að komast í almenna notkun og að nýnæmi lausnarinnar hér á landi hefði vegið þungt. Ef fleiri framleiðendur myndu nota lífræna kippuhringi í stað plasts myndi það ekki einungis skila sér í minni plastnotkun og -mengun heldur einnig auka meðvitund í samfélaginu um óþarfa plastnotkun. Á síðasta ári voru 15 milljónir lítra af bjór í áldósum seldir hérlendis og 75% þeirra eru íslensk framleiðsla.

Kallað var í sumarbyrjun eftir tilnefningum frá almenningi um fyrirtæki, stofnanir, einstaklinga eða aðra sem hafa nýtt framúrskarandi lausnir við að stuðla að minni plastnotkun og minni plastúrgangi í samfélaginu. Fjögurra manna dómnefnd skipuð fulltrúum frá Umhverfisstofnun, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Samtökum atvinnulífsins og Plastlausum september fór yfir tilnefningarnar og valdi verðlaunahafa.

Fimm aðilar komust í úrslitahóp dómnefndar auk Seguls 67, en það voru Bioborgarar, Efnalaugin Björg, Farfuglar á Íslandi og Kaja Organics. Bioborgarar er lífrænn hamborgarastaður sem m.a. framreiðir matinn í margnota búnaði á staðnum og í pappaumbúðum fyrir þau sem taka hann með, Efnalaugin Björg býður upp á fjölnota fatapoka, Farfuglar á Íslandi hafa dregið verulega úr plastúrgangi og tekið út einnota plast í rekstri farfuglaheimila sinna og Kaja Organics rekur meðal annars umbúðalausa verslun, lífrænt kaffihús, heildsölu og framleiðslu vottaða af Tún lífrænni vottun.

Stofnað var til Bláskeljarinnar í því skyni að hvetja til plastlausra lausna í íslensku samfélagi og er viðurkenningin liður í aðgerðum umhverfis- og auðlindaráðuneytisins til að draga úr plastmengun.