Stök frétt

Umhverfisstofnun hefur til skoðunar beiðni landeiganda í Reykjahlíð í Skútustaðahreppi um lokun svæða við Hveri, Leirhnjúk og Víti við Kröflu á grundvelli 25. gr. a. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd, vegna álags af völdum ferðamanna. Stofnunin hefur gert úttekt á áfangastöðunum og liggur fyrir að álag er á svæðunum og þeir innviðir sem eru á svæðunum hafa látið á sjá en það er mat landvarða að við ástandinu sé hægt að bregðast með aðgerðum á svæðunum.

Ákvæðið er svohljóðandi:

„Ef veruleg hætta er á tjóni af völdum mikillar umferðar eða vegna sérstaklega viðkvæms ástands náttúru getur Umhverfisstofnun ákveðið að takmarka umferð eða loka viðkomandi svæði tímabundið fyrir ferðamönnum að fenginni tillögu hlutaðeigandi sveitarfélags, [Landgræðslunnar] 1) eða landeiganda eða að eigin frumkvæði. Samráð skal haft um slíka ákvörðun við hlutaðeigandi sveitarfélag og fulltrúa ferðaþjónustu og útivistarfólks sem ætla má að hyggi á ferðir um svæðið. Ef um eignarland er að ræða skal ætíð haft samráð við eiganda lands eða rétthafa áður en ákvörðun er tekin. Takmörkunin eða lokunin skal að jafnaði ekki standa lengur en tvær vikur en ef nauðsyn krefur er heimilt að framlengja hana, að fenginni staðfestingu ráðherra. Ákvörðun samkvæmt þessari grein skal birta í dagblöðum og útvarpi og á vefsíðum Umhverfisstofnunar og Vegagerðarinnar.“

Áður en metið verður hvort takmarka eigi umferð og umfang takmarkana, óskar Umhverfisstofnun eftir umsögnum og samráði varðandi umrædda takmörkun. Þar sem um skyndilokun væri að ræða óskar stofnunin eftir svari sem fyrst eða eigi síðar en fyrir kl. 10:00, miðvikudaginn 31. júlí 2019.

Ef óskað er eftir frekari upplýsingum vinsamlegast hafið samband við Davíð Örvar Hansson í síma 822-4039 eða sendið fyrirspurnir á netfangið: davidh@ust.is