Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Stök frétt

Landsbankinn og Arion banki hafa innkallað endurskinsmerki í kjölfar eftirlits Umhverfisstofnunar. Trix vöruþróun ehf. hefur hætt markaðssetningu á þeim. Efnagreiningar sem stofnunin lét gera á merkjum sem voru meðal kynningarvara Landsbankans leiddu í ljós að þau innihéldu tiltekin hættuleg efni í meiri styrk en leyfilegt er (sjá nánar að neðan). Meðal kynningarvara Arion banka voru sambærileg merki frá sama framleiðanda sem ekki voru send til efnagreiningar. Þegar niðurstöður lágu fyrir hafði Umhverfisstofnun samband við bankana tvo og sameiginlegan birgi þeirra, Trix vöruþróun ehf. Öll fyrirtækin brugðust þegar við með innköllun á merkjunum sem um ræðir.

Fréttatilkynning Landsbankans

Fréttatilkynning Arion banka

Fréttatilkynning Trix vöruþróunar ehf.

Efnagreiningarnar voru liður í samnorrænu eftirlitsverkefni um efnainnihald kynningarvara. Val Umhverfisstofnunar á eftirlitsþegum miðaðist við aðila sem næðu til fólks um landið allt og horft var sérstaklega til kynningarvara fyrir yngri kynslóðir. Af þessum sökum urðu Arion banki, Íslandsbanki og Landsbankinn fyrir valinu.

Eftirlitið var framkvæmt með þeim hætti að Umhverfisstofnun fékk sýni af kynningarvörum frá bönkunum og skimaði hluta varanna fyrir tilteknum áhættuþáttum varðandi efnainnihald. Skimunin var unnin með aðstoð starfsfólks Tollstjóra og tækjabúnaði í eigu þess embættis. Í kjölfar skimunarinnar voru valdar fjórar vörur sem sendar voru til efnagreininga. Þau efni sem leitað var við efnagreiningar ýmist fundust ekki í öðrum vörum í eftirlitinu eða voru til staðar í styrk innan leyfilegra marka. Rétt er að halda því til haga að fáar vörur voru sendar til efnagreininga og aðeins þær sem féllu vel að þeim skimunaraðferðum sem beitt var í verkefninu.

Nánar um efnagreiningarnar og reglurnar:

Efnin sem mældust yfir leyfilegum mörkum voru kadmíum, bis(2-ethylhexyl) phthalate (DEHP) og keðjustutt klóruð paraffín (SCCP). Allt eru þetta þekkt íbótarefni í plast til að ná fram tilteknum eiginleikum. Efnagreiningar voru takmarkaðar við tiltekin ákvæði reglugerðar (EB) nr. 1907/2006 um skráningu, mat, leyfisveitingu og takmarkanir, að því er varðar efni (REACH) með síðari breytingum sem innleidd er með reglugerð nr. 888/2015 með sama nafni og reglugerðar (EB) nr. 850/2004 um þrávirk lífræn mengunarefni með síðari breytingum sem innleidd er með reglugerð nr. 954/2013 um þrávirk lífræn efni (POP). Ákvæðin sem um ræðir er ýmist að finna í XVII. viðauka við REACH reglugerðina eða I. viðauka við POP reglugerðina. Í töflunni að neðan má sjá hvaða ákvæði voru til skoðunar í verkefninu.

Efni

Takmörkun*

Reglugerð

Kadmíum

Færsla 23 í XVII. viðauka

REACH

Þalötin DEHP, DBP, BBP og DIBP

Færsla 51 í XVII. viðauka

REACH

Þalötin DINP, DIDP og DNOP

Færsla 52 í XVII. viðauka

REACH

Blý

Færsla 63 í XVII. viðauka

REACH

Alkön, C10-C13, klóruð (keðjustutt, klóruð paraffín) (SCCP)

Ákvæði í B-hluta I. viðauka

POP

* Viðaukana sem vísað er til má finna í viðkomandi reglugerð ESB.

 

Í XVII. viðauka við REACH reglugerðina er að finna ýmsar takmarkanir varðandi tiltekin hættuleg efni. Takmarkanir í þessum viðauka koma til þegar óheft framleiðsla, notkun eða markaðssetning tiltekins efnis hefur í för með sér óviðunandi áhættu fyrir heilbrigði manna eða umhverfi.

Í I. viðauka við POP reglugerðina er að finna ýmsar takmarkanir varðandi tiltekin þrávik lífræn mengunarefni sem eru takmörkuð með Stokkhólmssamningnum. Markmiðið er að minnka eða útrýma tilvist þessara efna í umhverfinu þar sem þau brotna hægt niður og safnast upp í lífverum og umhverfinu. Þessi efni eru ýmist grunuð um að vera hættuleg heilsu og/eða umhverfi ellegar staðfest hefur verið að svo sé.

Skilyrði framangreindra takmarkana geta verið margvísleg, s.s. tiltekinn hámarksstyrkur viðkomandi efnis í efnablöndum eða hlutum, skilyrt notkun efnisins eða algjört bann við framleiðslu og markaðssetningu. Hvað varðar efnagreiningarnar í þessu eftirlitsverkefni var í öllum tilfellum verið að skima eftir efnum sem ekki mega finnast yfir tilteknum hámarksstyrk í þeim hlutum sem teknir voru til skoðunar.