Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Stök frétt

Umhverfisstofnun hefur gefið út starfsleyfi fyrir sjókvíaeldi Fiskeldis Austfjarða hf. til framleiðslu á allt að 11.000 tonnum af laxi á ári í Fáskrúðsfirði. Hámark lífmassa starfseminnar á hverjum tíma er 11.000 tonn í firðinum.

Starfsleyfið byggir á skilyrðum á grundvelli reglugerðar nr. 550/2018 um losun frá atvinnurekstri og mengunarvarnaeftirlit sem sett er með stoð í 5. gr. laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 7/1998. Starfsleyfi Umhverfisstofnunar tekur á mengunarþætti eldisins og gerir ítarlegar kröfur um takmörkun á mengun, eftirlit og mælingar á starfstíma.

Umhverfisstofnun auglýsti opinberlega tillögu að starfsleyfinu á vefsíðu stofnunarinnar þann 14. desember 2018 og var frestur til að skila inn athugasemdum til og með 18. janúar 2019.
Umhverfisstofnun bárust tvær umsagnir á auglýsingatíma og er gerð grein fyrir þeim í athugasemdum í greinargerð með starfsleyfinu í samræmi við 6.gr. rg. nr. 550/2018. Umhverfisstofnun sendi Matvælastofnun starfsleyfið eftir ákvörðun um útgáfu sbr. 4. gr. a laga nr. 71/2008, um fiskeldi, og skal afhent og birt umsækjanda með rekstrarleyfi Matvælastofnunar. Starfsleyfið öðlaðist gildi við afhendingu Matvælastofnunar til rekstraraðila og gildir til 14. mars 2035.

Auglýsing þessi er birt á fréttasvæði Umhverfisstofnunar en auk þess í sérstökum dálki fyrir opinberar birtingar á starfsleyfum sem stofnunin gefur út. 

Ákvörðun Umhverfisstofnunar um útgáfu starfsleyfis er kæranleg til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála innan eins mánaðar frá birtingu ákvörðunar Umhverfisstofnunar skv. 65. gr. laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, sbr. 4. gr. laga nr. 130/2011, um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Tengd skjöl:

Starfsleyfi ásamt greinargerð
Ákvörðun um útgáfu starfsleyfis og undirritað starfsleyfi
Matsskýrsla framkvæmdarinnar
Álit Skipulagsstofnunar
Viðbótargreinargerð um valkostaumræðu
Umsögn Skipulagsstofnunar um valkosti
Umsókn um starfsleyfi
Umsögn Óttars Yngvasonar
Umsögn Landssambands veiðifélaga