Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur.

Stök frétt

Vísbending er um að mikill hluti þess plastúrgangs sem finnst við fjörur Íslands sé úrgangur sem orðið hefur til hér á landi. Þetta segir Sóley Bjarnadóttir, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun. Stofnunin hóf vöktun stranda samkvæmt leiðbeiningum frá OSPAR sumarið 2016. „Við Íslendingar þurfum augljóslega að viðurkenna okkar hlut í heildarmyndinni,“ segir Sóley.

Vöktunargögnin sýna að sögn Sóleyjar að stór hluti rusls í íslenskum fjörum er úrgangur sem kemur frá landi eins og t.d. flöskutappar, matarumbúðir, sælgætisbréf, haglabyssuhylki og blautklútar. „Því miður finnst einnig mikið af plastbrotum, en erfitt er að meta uppruna þeirra.“

Sóley segir að sölubann á plastburðarpokum sé engin allsherjarlausn en þó rökrétt skref, sem snúist  um að breyta hugsun og hegðunarmynstri.  Eðlilegt sé að Íslendingar taki þátt í alþjóðlegu átaki til að stemma stigu við einnota plasti og þá sérstaklega í ljósi þess að íslenska þjóðin byggi að miklu leyti afkomu sína á hreinni náttúru og afurðum hafsins.

Einnig þurfi að horfa til þess hversu neyslufrekir Íslendingar séu í samanburði við önnur lönd og hve mikill úrgangur fellur til fyrir hvern landsmann. Af þeim sökum þurfi Íslendingar augljóslega að axla ábyrgð og gera allt sem í okkar valdi stendur.