Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur.

Stök frétt

Síðastliðinn mánudag hlaut Fjarðaþrif endurvottun Svansins fyrir endurskoðuð og hert viðmið Svansins fyrir ræstingaþjónustur.

Fjarðaþrif er 15 ára gamalt fyrirtæki og hefur verið Svansvottað fyrirtæki síðan 2012. Fyrirtækið er eina ræstingafyrirtækið á Austfjörðum sem er vottað samkvæmt viðmiðum Svansins.

Við gagnaskil og úttekt kom í ljós að gott utanumhald er um kröfur Svansins í höfuðstöðvum fyrirtækisins og var brugðist fljótt og örugglega við athugasemdum Svansins. Einnig var skipulag á lager og í ræstikompum til fyrirmyndar.

Til að hljóta vottun Svansins þarf ræstiþjónusta að hafa lágmarkað efnanotkun, lágmarkað eldsneytisnotkun í rekstri, hámarkað hlutfall umhverfisvottaðra efna og hætt notkun á efnum sem geta verið skaðleg umhverfinu og heilsu manna svo eitthvað sé nefnt. Einnig er lögð áhersla á fræðslu og leiðbeiningar til starfsfólks og að fyrirtækið sé með ferill til að tryggja gæði þjónustunnar.

Umhverfisstofnun óskar Fjarðaþrifum til hamingju með áfangann og þakkar samstarfið.

Á myndinni eru frá vinstri Eðvald Garðarsson viðskiptastjóri, eigendurnir Lára Eiríksdóttir og Björgvin Erlendsson og skrifstofustjórinn Helga Leifsdóttir.