Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Stök frétt

Umhverfisstofnun hefur gefið út starfsleyfi fyrir Thorsil ehf. að afloknu opinberu auglýsingaferli. Nokkur ákvæði leyfisins hafa verið endurskoðuð og þarf fyrirtækið að uppfylla ný ákvæði til að sporna gegn lyktarmengun.

Forsaga málsins er að þann 27. október 2016 kvað úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála upp úrskurð að fella úr gildi ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 11. september 2015 um að veita Thorsil ehf. starfsleyfi fyrir rekstri kísilverksmiðju á iðnaðarsvæðinu í Helguvík. Vegna þessa tók Umhverfisstofnun afgreiðslu málsins fyrir á ný. Úrskurðurinn byggði á því athugasemdafrestur hafi verið of stuttur miðað við ákvæði reglugerðar.

auglýsing starfsleyfistillögu fór fram á tímabilinu 3. nóvember 2016 til 2. janúar 2017 og eintak lá frammi á sama tíma á skrifstofu Reykjanesbæjar. Auglýsing tillögunnar í Lögbirtingablaði var 3. nóvember 2016 auk tilkynningar á heimasíðu Umhverfisstofnunar.  Auglýst tillaga var samhljóða afgreiðslu Umhverfisstofnunar á starfsleyfinu frá 2015. Á sama tíma og opið var fyrir athugasemdir varð mikil fréttaumræða vegna mengunar og lyktar frá annarri kísilverksmiðju á sama svæði, verksmiðju Sameinaðs Sílikons (United Silicon). Urðu hörð viðbrögð hjá mörgum íbúum Reykjanesbæjar vegna ítrekaðra óhappa og örðugleika.

Óskað var eftir því við Umhverfisstofnun að haldinn yrði kynningarfundur um starfsleyfistillöguna. Fundurinn fór fram í bíósal Duus Safnhúsa þann 5. janúar 2017. Um 30-40 manns mættu á fundinn og kynnti Umhverfisstofnun drög að starfsleyfi fyrir Thorsil. Farið var  yfir umhverfisvöktun og loftdreifispár. Einnig voru forsvarsmenn Thorsil með kynningu á sínum rekstri og fyrirhuguðum mengunarvörnum og sátu fyrir svörum ásamt fulltrúum Umhverfisstofnunar. Athugasemdafrestur var síðan framlengdur til 9. janúar 2017.

Að loknum umsagnarfresti höfðu borist athugasemdir frá 30 einstaklingum, tvö minnisblöð frá rekstraraðila og eitt áframsent erindi frá Samgöngustofu. Nokkrir umsagnaraðilar vöktu í athugasemdum sínum athygli á undirskriftarlista þar sem farið var fram á að Umhverfisstofnun gefi ekki út starfsleyfi fyrir „kísilmálmverksmiðju Thorsil í Helguvík að svo komnu máli“ eins og það er orðað í texta þeirra sem óskuðu þess að undirskriftalistinn yrði hafður til hliðsjónar við ákvörðun. Tæplega 3500 einstaklingar skrifuðu nöfn sín á undirskriftalistann.

Umhverfisstofnun fór yfir allar athugasemdir sem bárust og breytti eins og áður segir nokkrum ákvæðum fyrra starfsleyfis til að koma á móts við ábendingar almennings. Helst ber að nefna ný ákvæði um lykt í greinum 3.19 og 3.20 vegna reynslu sem skapast hefur af hinni verksmiðjunni. Ákvæði um lykt voru ekki í starfsleyfinu sem fellt var úr gildi, enda var engin umræða um lykt frá starfseminni í mati á umhverfisáhrifum eða í umsóknargögnum. Var fyrirfram ekki talin hætta á slíkum vandamálum.

Nokkrum öðrum atriðum í starfsleyfinu var breytt lítillega og vísast þar til greinargerðar og starfsleyfisins.

Starfsleyfið gildir  til 11. september 2031.

Tengd skjöl