Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Stök frétt

Umhverfisstofnun hefur tekið þá ákvörðun að gera breytingu á starfsleyfi fyrir Fjarðalax ehf. í Fossfirði. Forsaga málsins er sú að vegna eldisaðferða hjá fyrirtækinu óskaði það eftir því að framleiðsluheimild yrði jafnað á þriggja ára tímabil. 

Sú ákvörðun var tekin að verða við þessari ósk með því skilyrði að einnig yrði sett inn í leyfið skilyrði um hámark á lífmassa. Í stað fyrri texta um að heimildin sé bundin við að framleiða allt að 1.500 tonn af laxi á ári, skal framleiðslan á þremur árum samtals vera undir 4.500 tonnum (1.500 tonnum að meðaltali á ári), framleiðsla á einu almanaksári má vera allt að 3.000 tonnum á ári og lífmassi skal vera undir 3.000 tonnum í einu. 

Tillagan var auglýst á tímabilinu 17. nóvember 2014 til 12. janúar 2015. Ein athugasemd kom við tillöguna. Arnarlax hf. sem er laxeldisfyrirtæki á Bíldudal við Arnarfjörð og samkeppnisaðili Fjarðalax ehf. taldi í athugasemdinni að breytingartillagan hefði áhrif á nýja matsáætlun fyrirtækisins og að forsendur frummatsskýrslu vegna framleiðsluaukningar kunni að bresta ef breytingartillagan verður samþykkt. 

Í svarbréfi Umhverfisstofnunar vegna þessarar athugasemdar benti stofnunin á að hún hefur heimild til að endurskoða starfsleyfi. Stofnunin telur að breytingin sé óveruleg, að hún geti dregið úr neikvæðum umhverfisáhrifum og bendir á að hún sé í samræmi við ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu (frá 5. maí 2011).