Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Stök frétt

Olíudreifing ehf. hefur verið veitt starfsleyfi fyrir rekstur olíubirgðastöðvar á Neskaupstað í Fjarðabyggð. Með starfsleyfinu er rekstaraðila veitt heimild til að taka á móti og geyma olíu til afgreiðslu í Naustahvammi 53 allt að 4000 m3 í stærsta geymi og í Naustahvammi 57 allt að 2130 m3 í stærsta geymi. Einnig er heimil móttaka úrgangsolíu. Í veitingunni felst að eitt leyfi hefur verið veitt fyrir starfsemi sem féll áður undir tvö leyfi Olíudreifingar ehf. 

Umhverfisstofnun auglýsti opinberlega tillögu að starfsleyfi á tímabilinu 31. október til 26. desember 2013. Tillagan var, auk opinberrar auglýsingar, sérstaklega send til umsagnar hjá Fjarðabyggð, Heilbrigðisnefnd Austurlands og Olíudreifingar ehf. Þá lá tillagan frammi í ofangreindan tíma á skrifstofu Fjarðarbyggðar ásamt umsóknargögnum. 

Ein athugasemd barst á auglýsingatíma, sem var frá Olíudreifingu ehf. Að auk kom ein athugasemd fram í umsagnarferli sem hafði átt sér stað þar á undan (Heilbrigðisnefnd Austurlands 15. júlí). Olíudreifing óskaði eftir að ekki væri gerð krafa um tæmingu olíu úr olíuskilju einu sinni á ári, því að fyrirtækið mun framvegis ekki leiða undantappaða olíu í olíuskilju og við það byrja að endurnýta hana eða setja beint í úrgangsolíuílát. Sú aðgerð myndi minnka mjög það magn olíu sem færi í olíuskilju. Umhverfisstofnun féllst á það en tilgreindi í staðinn mörk fyrir því hvenær tæma eigi olíuskilju. 

Athugasemd Heilbrigðisnefndar Austurlands varðaði afmörkun starfseminnar og umgengi, að öll starfsemi skuli fara fram innan lóða, að ekki megi geyma hluti og tæki utan lóðamarka og að halda skuli umhverfinu snyrtilegu meðfram steyptum veggjum sem afmarka lóðirnar. Varðandi afmörkun starfseminnar þá nær leyfið ekki til flutnings á olíu, sem fer að mestu leyti fram utan lóðamarka. Umhverfisstofnun tekur undir að starfsleyfishafi eigi að halda umhverfi olíubirgðarstöðvarinnar snyrtilegu, og fari að lögum nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs. 

Viðbrögð Umhverfisstofnunar við athugasemdunum hafa verið tekin saman í greinargerð sem fylgir með fréttinni í sérstöku skjali þar sem útlistað er ítarlega hvernig Umhverfisstofnun brást við athugasemdum sem fram komu. 

Starfsleyfið öðlast þegar gildi og gildir til 20. janúar 2030. Með gildistöku þessa starfsleyfis falla úr gildi eldri starfsleyfi Olíudreifingar ehf. fyrir olíubirgðastöð við Naustahvamm 57, frá 2.01.2006 og starfsleyfi fyrir olíubirgðastöð Olíudreifingar, áður í eigu Íslenskrar olíumiðlunar við Naustahvamm 53, frá 22. 03. 2005, sem útgefin voru af Umhverfisstofnun.

Tengd skjöl