Stök frétt

Í júní síðastliðinn komu tveir fimma manna hópar sjálfboðaliða á vegum Umhverfisstofnunar og unnu í tvær vikur á verndarsvæðum í Vesturbyggð og Ísafjarðarbæ. Sjálfboðaliðarnir hafa fengið þjálfun í viðhaldi og uppbyggingu á göngustígum og öðrum verkefnum sem þarf að vinna að á verndarsvæðum til að viðhalda verndargildi þeirra. Ferðamannastraumur til Vestfjarða er að aukast jafnt og þétt og kappkostað er við að gera verndarsvæðin í stakk búin til að taka á móti þeim fjölda. 

Á Dynjanda var viðhaldi á göngustíg haldið áfram frá fyrra ári. Bætt var við steintröppum, vatnsrásum og aflegu stígum lokað. Mikill árangur hefur náðst í að draga úr hnignun gróðurs á svæðinu með því að afmarka betur gönguleiðir og gera þær greiðfærari. 

Í Vatnsfirði unnu sjálfboðaliðar m.a. að gerð göngustígs frá tjaldsvæði ofan Hótel Flókalunds að Hellulaug sem er við fjöruborðið. Nú þurfa gestir tjaldsvæðisins ekki lengur að ganga eftir þjóðveginum í laugina. Í Vatnsfirði er fjöldi skemmtilegar gönguleiða og vinna sjálfboðaliðar ásamt landvörðum á svæðinu árlega að viðhaldi þessara stíga. 

Á Látrabjargi var annar hópur í tröppugerð á Bjargtöngum þar sem haldið var áfram vinnu frá því í að bæta við steintröppum neðan við Ritugjá. Einnig var hellulögð stétt við Bjargtangavita úr náttúrusteini af svæðinu. Þá unnu sjálfboðaliðar að uppgræðslu á göngustíg í Geldingsskorardal með mosa sem fluttur er af svæði sem þolir að mosi sé tekin frá og settur í farveg gamla stígsins. Þessi aðferð hefur skilað góðum árangri víða á náttúruverndarsvæðum. Einnig var unnið að upprætingu lúpínu sem er að breiðast út í Breiðavík. 

Áfram verður unnið að uppbyggingu og viðhaldi á innviða náttúruverndarsvæða á Sunnanverðum Vestfjörðum til að auka verndun og ekki síst upplifun ferðamanna á svæðunum. Landverðir eru á öllum svæðum og hvetjum við ferðamenn og ekki síst heimamenn til að koma og njóta útivistar á verndarsvæðum sveitarfélaganna. Landverðir taka vel á móti gestum og veita upplýsingar og leiðbeina fólki um svæðin.

Mosaflutningur

Mosi græddur