Stök frétt

Tveir sérfræðingar í vatnamálum heimsóttu Umhverfisstofnun dagana 22.- 23. apríl sl. í því skyni að veita fræðslu og ráð um tæknilegar útfærslur á innleiðingu vatnatilskipunar ESB (2000/60/EC) á Íslandi. Heimsóknin var styrkt í gegnum svonefnt TAIEX aðstoðarkerfi ESB.

Á fundum með þeim var fyrst og fremst fjallað um greiningu álags á vatnshlot og mati á líkindum þess að þau næðu ekki umhverfismarkmiðum um gott ástand. Auk þess var m.a. fjallað um hvernig álagsgreiningin tengist gerð aðgerðaáætlana, vöktunaráætlana og flokkunar á ástandi vatnshlota.

Sérfræðingarnir sem komu voru þær Hana Prchalová frá T.G. Masaryk vatnarannsóknarstofnuninni í Tékklandi og Sirkka Tattari frá Umhverfisstofnuninni í Finnlandi. Báðar hafa þær tekið þátt í innleiðingu vantantilskipnarinnar í heimalöndum sínum en þar tók hún gildi 9 árum fyrr en á Íslandi.

Fjórtán starfsmenn frá Umhverfisstofnun, Veðurstofu Íslands, Veiðimálastofnun, Hafrannsóknarstofnun, Orkustofnun og heilbrigðiseftirliti sveitarfélaga sóttu fundinn en þessar stofnanir eiga í samstarfi um innleiðingu nýs stjórnkerfis vatnamála.

Innleiðing hins nýja stjórnkerfis krefst góðrar þekkingar á vinnuaðferðum, sameiginlegs skilnings og góðrar samvinnu þeirra sem að henni vinna. Samskipti af þessu tagi við sérfræðinga með reynslu frá öðrum Evrópuríkjum er því mikilvæg til að auðvelda megi vinnuna og gera hana markvissari. Heimsóknin er jafnframt liður í að miðla þekkingu til þeirra fjölmörgu sem að vinnunni koma.

Frekari upplýsingar um stjórn vatnamála er að fá á vefsíðunni www.vatn.is.