Stök frétt

Íslensk náttúra er ein verðmætasta eign þjóðarinnar og flest okkar hafa sterkar tilfinningar til hennar. Náttúra Íslands er viðkvæm, jarðvegur er ungur, gróðurhula þunn og vaxtartími plantna stuttur. Umgengni okkar við náttúru landsins hefur þó oft ekki verið til fyrirmyndar, oftast af gáleysi en ekki af ásetningi.

Síðustu ár hefur orðið bylting í fararskjótum þeirra sem fara yfir fjöll og hálendi, hestar hafa vikið fyrir vélknúnum ökutækjum eins og t.d. fjórhjólum. Hin síðari ár hefur mikið borið á skemmdum á landi vegna aksturs vélknúinna ökutækja utan vega s.s. bíla, fjórhjóla og annarra ökutækja. Skemmdir þessar hafa valdið sárum á landinu sem erfitt er að afmá og eru lengi að gróa ef þau gróa á annað borð. Þessar skemmdir eru oft upphaf gróðureyðingar og skemma út frá sér í marga áratugi.

Nú er kominn sá tími árs að leitir eru að hefjast, þar sem bændur ganga á afrétti og sækja fé heim. Þessir hópar hafa í auknu mæli nýtt sér fjórhjól til þess að létta sér störfin. Af því tilefni vill Umhverfisstofnun hvetja alla þá sem skipuleggja og taka þátt í leitum að virða þær reglur sem gilda um notkun vélknúinna ökutækja í náttúru Íslands til þess að komast megi hjá spjöllum.

Umhverfisstofnun óskar öllum góðrar heimtu á komandi haustmánuðum í sátt við náttúruna og umhverfið.

Ítarefni

Í lögum um náttúruvernd segir m.a.:

Bannað er að aka vélknúnum ökutækjum utan vega. Enn fremur segir: Ólögmætur akstur utan vega varðar refsingu, sbr. 76. gr. sömu laga.

Í reglugerð um takmarkanir á umferð í náttúru Íslands segir:

Við akstur vegna starfa við landbúnað er heimilt að aka utan vega á ræktuðu landi. Einnig er heimilt að aka utan vega á landi, utan miðhálendisins, sem sérstaklega er nýtt sem landbúnaðarland ef ekki hljótast af því náttúruspjöll.

Samkvæmt skilgreiningu reglugerðarinnar er:

  • Vegur: Varanlegur vegur, gata, götuslóði, stígur, húsasund, brú, torg, bifreiðastæði eða þess háttar, sem notað er að staðaldri til umferðar.
  • Vélknúið ökutæki: Ökutæki búið aflvél til að knýja það áfram, á hjólum, beltum, völtum, meiðum eða öðru, sem ætlað er til aksturs á landi og eigi rennur á spori.