Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Stök frétt

Við ákvörðun um stærð skotmarks sem nota skal í verklegu skotprófi fyrir hreindýraveiðimenn þarf að taka tillit til margra þátta. Ennfremur þarf að taka tillit til ákveðinna forsenda sem liggja fyrir. Hið raunverulega skotmark sem gerð er krafa um að veiðimenn séu færir um að hitta af öryggi er 20 sm. Það er er u.þ.b. stærð hjarta- og lungnasvæðis á fullvöxnu hreindýri. Það liggur því fyrir að á veiðum er þetta hámarksstærðin á skotmarkinu. Það hversu auðvelt er að hitta þetta skotmark ræðst af mörgum atriðum en fjarlægð og afstaða ræður þar mestu.

Samkvæmt rannsóknum norska veiðistjóraembættisins tvöfaldast feil- og skaðaskotahlutfallið á veiðum þegar fjarlægðin fer yfir 100 m og allt að 150 m. Hlutfallið fimmfaldast hinsvegar þegar skotið er á lengra færi en 150 m. Það þykir því ekki forsvaranlegt að gera ráð fyrir að skotið sé á lengra færi en 150 m á hreindýraveiðum hér á landi og því eðlilegt að hið verklega skotpróf taki tillit til þess.

Liggur þá næst fyrir að finna út hversu stór hringur þarf að vera til þess að endurspegla þær kröfur sem gera þarf til hreindýraveiðimanna miðað við ofangreindar forsendur.

Færa má rök fyrir því að flatarmál hrings ráði öllu um það hversu mikið reynir á skotfimi. Til þess að reikna flatarmál hrings er notuð formúlan: 3,14 x radíus x radíus.

Flatarmál 30 sm hrings er fjórum sinnum meira en 15 sm hrings. Það þarf því að fjórfalda hittni skyttunnar til að hitta í 15 sm hring í stað 30 sm hrings. Þessu má einnig snúa við. Með því að fara helmingi nær skotmarkinu verður fjórum sinnum auðveldara að hitta. Skot sem hafnar á brún 15 sm hrings á 50 m færi hafnar í brún 30 sm hrings á 100 m færi. Hér er gert ráð fyrir að engir utanaðkomandi þættir eins og veður, vindar eða kúluferill hafi áhrif.

Eins og áður sagði er hið raunverulega skotmark hjarta- og lungnasvæði hreindýrs sem er hringur sem er um 20 sm að þvermáli. Ef 20 sm hringur sem staddur er á 150 m færi er færður á 100 metra ætti hann að vera um 14 sm. Þetta segir okkur að veiðimaðurinn sem þarf að vera fær um að hitta í hjarta- og lungnasvæði hreindýrs á 150 m færi þarf að vera fær um að hitta í 14 sm hring á 100 m færi.

Fyrstu hugmyndir um stærð hringsins í prófinu gerðu ráð fyrir 18 sm hring sem höfðar til þess að líklega er meðalfjarlægð sem dýr eru felld á hér á landi í nágrenni við 100 m. Engar formlegar kannanir liggja þó fyrir til þess að styðja þá ágiskun, en samkvæmt norskum rannsóknum er meðalfjarlægðin sem dýr eru felld á þar í landi 90 m. Skotprófið sem hefur fyrst og fremst þann tilgang að tryggja mannúðlegar veiðar eins og kostur er getur ekki gert ráð fyrir meðalfjarlægð. Eðlilegra þykir að prófa út frá þeim aðstæðum sem líklegastar eru á veiðum.

Hámarksskotfærið sem forsvaranlegt er að gera ráð fyrir er hinsvegar 150 m. Ef skotpróf á að endurspegla þær kröfur að veiðimaður sé fær um að fella dýr á mannúðlegan hátt á 150 m færi þarf hringurinn á 100 m færi að vera um 14 sm eins og áður sagði. Veiðimaður sem hittir öllum fimm skotunum í 14 sm hring á 100 m færi ætti að vera fær um að fella hreindýr á allt að 150 m færi á mannúðlegan hátt séu aðstæður góðar. Hafa ber þó í huga að rannsóknir sýna að afstaða dýrsins og sjónlínan frá veiðimanninum ræður miklu um áreiðanleika skotsins. Snúi hreindýr hliðinni að veiðimanni er sjáanleg stærð hjarta- og lungnasvæðis um 20 sm. Breytist afstaðan minnkar stærðin. Kúluferillinn, veður og vindar eru utanaðkomandi áhrifaþættir sem einnig þarf að gera ráð fyrir á veiðum.  

Veiðimenn sem hyggjast skjóta hreindýr á lengra færi en 150 m þurfa að gera gott betur en að standast skotpróf með 14 sm hring. Hringurinn gerir þar af leiðandi ráð fyrir að hægt sé að stigamæla árangurinn í prófinu sem og á samsvarandi æfingaskífum. Þannig getur veiðimaður sem hefur staðist prófið og æft sig á skífunni áttað sig á eigin takmörkunum í lengd skotfæris. Til þess að forsvaranlegt sé að skjóta á 20 sm skotmark á 200 m færi þarf skyttan að vera fær um að hitta öllum skotum í 10 sm skotmark á 100 m færi. Hið verklega skotpróf sem lagt hefur verið fyrir leiðsögumenn fram til þessa gerir ráð fyrir 10 sm hring.

Mismunandi fjarlægðir yfirfærðar á prófskífuna sem gerir ráð fyrir því að hitta 20 sm skotmark á hámark 150 m færi.

  • 150 m = öll skot í hringnum (14 sm hringur)
  • 200 m = öll skot innan 4,5 (10 sm hringur)
  • 250 m = öll skot innan 6,5 (8 sm hringur)

Taka þarf sterklega fram að hér er gert ráð fyrir að veiðimaður þekki kúluferilinn og hafi gert ráð fyrir falli kúlunnar. Ennfremur er ekkert tillit tekið til vinds eða annarra utanaðkomandi þátta sem tvímælalaust hafa mikið að segja um hittni. Hér er því um algert lágmark að ræða. Ennfremur er vert að taka fram að þrátt fyrir að veiðimaður fái fullt hús stiga fyrir prófið er ekki þar með sagt að hann geti skotið á hvaða færi sem er á veiðum. Próf sem tekið er við staðlaðar aðstæður á skotvelli getur aldrei jafngilt aðstæðum á veiðum. Ef um er að ræða hliðarvind sem er 6 m á sek má gera ráð fyrir að algengustu veiðikúlur hafi rekið 3 sm til hliðar þegar komið er á 100 m færi og 12 sm á 200 m færi. Kúla getur ennfremur fallið um 15 sm á milli 100 m og 200 m.

Í ljósi ofangreinds er lagt til að skífan sem notuð verði á verklega skotprófinu fyrir hreindýraveiðimennn verði 14 sm í þvermál.

Einar Guðmann
Sérfræðingur Umhverfisstofnunar