Stök frétt

Helstu verkefni sérfræðingsins varða leyfisveitingu og skráningu sæfiefna á íslenskan markað. Sæfiefni eru virk efni og efnablöndur sem innihalda eitt eða fleiri virk efni sem ætlað er að eyða hættulegum lífverum, bægja þeim frá eða gera þær skaðlausar með efna- eða líffræðilegum aðferðum. Enn fremur hefur sérfræðingurinn umsjón með framkvæmd og innleiðingu EB gerða á sviði sæfiefna á Íslandi, hefur yfirumsjón með eftirliti með innflutningi og markaðssetningu sæfiefna og tekur þátt í norrænum og evrópskum nefndum sem fjalla um framkvæmd löggjafarinnar. Þá hefur sérfræðingurinn umsjón með samskiptum og fræðslu til iðnaðar, heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga og almennings um málefni sem tengjast starfssviðinu. Nánari upplýsingar um sæfiefni á heimasíðu Umhverfisstofnunar.

Hæfniskröfur

Gerð er krafa um háskólapróf í efnafræði auk framhaldsmenntunar og er þekking á eiturefnafræði og áhættumati efna kostur. Önnur sambærileg menntun kemur einnig til greina.

Almennar hæfniskröfur

Auk þeirra hæfniskrafna sem gerðar eru til starfsins og tilgreindar eru að ofan, verða eftirfarandi kröfur um þekkingu, reynslu og hæfni  lagðar til grundvallar við  ráðstöfun starfsins:

  • Skipulagshæfileikar og markviss vinnubrögð
  • Hæfni í framsetningu upplýsinga á skrifuðu og töluðu máli
  • Kunnátta í ensku og einu norðurlandamáli
  • Samstarfshæfni og lipurð í mannlegum samskiptum

Næsti yfirmaður sérfræðingsins er Sigríður Kristjánsdóttir deildarstjóri, sem veitir nánari upplýsingar um starfið ásamt Sigrúnu Valgarðsdóttur starfsmannastjóra  í síma 591 2000.

Laun eru samkvæmt kjarasamningi fjármálaráðherra og hlutaðeigandi stéttarfélags.

Bæði konur og karlar eru hvött til að sækja um starfið.

Æskilegt er að starfsmaður geti hafið störf sem fyrst. Föst starfsaðstaða starfsmannsins getur verið í Reykjavík, Hellissandi, Ísafirði, Akureyri, Mývatni, Egilsstöðum eða Vestmannaeyjum, allt eftir búsetu umsækjanda. Gert er ráð fyrir að gagnkvæmur reynslutími sé sex mánuðir við ráðningu.

Umsóknir skulu sendar til Umhverfisstofnunar, Suðurlandsbraut 24, 108 Reykjavík eða á netfangið ust@ust.is fyrir 12. mars 2012.