Umhverfisstofnun var lögð niður 31. desember 2024. Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi.

Stök frétt

Miðvikudaginn 27. apríl næstkomandi mun Umhverfisstofnun standa fyrir málstofu um innleiðingu vatnatilskipunar ESB vegna þeirrar vinnu sem framundan er hér á landi.

Lögð verður áhersla á þann grunnþátt við innleiðinguna að flokka vatnshlot í gerðir innan áa, stöðuvatna, árósa, sjávarlóna og strandsjávar. Flokkun vatnshlota í gerðir er ákvörðuð út frá landfræðilegum þáttum, s.s. hæð yfir sjávarmáli, staðsetningu, flatarmáli, dýpi og sjávarföllum, og jarðfræðilegum eiginleikum. Einnig verður á málstofunni fjallað um ákvarðanir um manngerð og mikið breytt vatnshlot, auk þess sem farið verður í aðferðir við frummat á álagi á gerðir vatnshlota. 

Leiðbeinendur á málstofunni verða Jon Lasse Bratli frá Klima- og forurensningsdirektoratet í Noregi og Helga Gunnarsdóttir frá norska vatnasvæðinu Morsa í Austur Noregi. Jon Lasse Bratli er yfirverkfræðingur og hefur tekið þátt í innleiðingu vatnatilskipunarinnar í Noregi frá upphafi auk þess að vera fyrirlesari og leiðbeinandi á fjölda námskeiða og ráðstefna um vatnatilskipunina. Hann hefur einnig komið fram sem fulltrúi Noregs í Evrópusamstarfi varðandi vatnatilskipunina. Helga Gunnarsdóttir er verkefnisstjóri við innleiðingu vatnatilskipunarinnar á vatnasvæðinu Morsa, við austanverðan Oslófjörð, þar sem eru stór landbúnaðarhéruð, ásamt mengandi iðnaði. 

Jon Lasse og Helga munu í erindum sínum taka fyrir nokkur hagnýt dæmi frá Noregi um aðferðir við flokkun vatnshlota í gerðir, álagsgreiningu og fleira er tengist vatnatilskipuninni, lýsa reynslu sinni, hvaða vandamál hafa komið upp og gefa góð ráð. 

Málstofan er skipulögð fyrir þá fagaðila sem koma að innleiðingarferli vatnatilskipunarinnar en allir áhugasamir eru velkomnir.

Málstofan verður haldin á Grand hótel (salur: Háteigur B) kl. 9:00-16:30 þann 27. apríl 2011.