Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur.

Stök frétt

Saga er níu ára stelpa sem ferðast mikið með foreldrum sínum. Eitt sinn þegar fjölskyldan var á ferðalagi birtist álfastrákurinn Jökull og þau Saga hafa síðan lent í ýmsum ævintýrum á Vesturlandi. Í þjóðgarðinum Snæfellsjökli skoðuðu þau lífið á fjörusteinum og létu hugann reika.

Alls lenda Saga og Jökull í 10 ævintýrum á jafn mörgum stöðum á Vesturlandi og á landakortinu sést hvaða staðir þetta eru. Á hverjum stað geta börn á aldrinum 6 – 12 ára fengið eina sögu um þessa fjörugu krakka og kynnst þeim betur. Útbúin hefur verið mappa sem hægt er að safna sögunum í og lesa þær síðan aftur og aftur og lita myndirnar. Á hverjum stað er stimplað í möppuna og þannig sést hvert börnin hafa lagt leið sína. Eftir fimmta stimpilinn, fá þau litla gjöf og svo aðra þegar stimplarnir eru orðnir tíu.

Saga og Jökull - mappaÍ Þjóðgarðinum Snæfellsjökli er náttúran í aðalhlutverki. Það á einnig við um ævintýrasiglingu með Sæferðum. Á Eiríksstöðum í Dölum og í Landnámssetrinu í Borgarnesi er hægt að kynnast víkingum eins og Agli Skallagrímssyni og Leifi heppna, sem fann Ameríku. Í heimsókn í Reykholt fær fjölskyldan innsýn í verk og starf rithöfundarins Snorra Sturlusonar og Gljúfrasteinn er heimili annars rithöfundar, Halldórs Laxness. Á Bjarteyjarsandi í Hvalfirði fá gestir að kynnast lífinu á sveitabæ. Það opnast heill heimur og brúður lifna í Brúðuheimum í Borgarnesi. Þá er ekki lítið ævintýri að heimsækja heim tröllanna í Fossatúni í Borgarfirði eða skoða leikfangasafn með 50 ára gömlum leikföngum í Sögumiðstöðinni í Grundarfirði.

Saga og Jökull á Vesturlandi er svokallað Gáttaverkefni sem er tveggja ára vöruþróunarverkefni í menningartengdri ferðaþjónustu, styrkt af Iðnaðarráðuneyti, Ferðamálastofu og Impru á Nýsköpunarmiðstöð Íslands, auk þess sem Háskólinn á Hólum er samstarfsaðili. Að verkefninu standa 10 aðilar víðsvegar á Vesturlandi. ILDI ehf. hefur umsjón yfir samstarfsverkefninu. Teiknari er Ómar Smári Kristinsson og hönnuður efnis er Nína Ivanova. Saga og Jökull voru kynnt á ferðasýningu í Perlunni fyrir skömmu og þar voru meðfylgjandi myndir teknar.

 

Saga og Jökull í Perlunni 2010 - sögustund

Saga og Jökull í Perlunni 2010

Saga og Jökull í Perlunni 2010