Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur.

Stök frétt

Umhverfisstofnun hefur komið upp svifryksmæli við Kirkjubæjarklaustur í því skyni að fylgjast með áhrifum gjóskufalls á loftgæði austur af Eyjafjallajökli, í jaðri og utan við mesta áhrifasvæði gjóskufallsins.

Mælingar á styrk svifryks hófust kl. 22:00 í gærkvöldi (föstudaginn 16. apríl) og nú eftir fyrstu nótt hefur meðalstyrkur svifryks verið um 25 µg/m 3 (mikrogrömm á rúmmeter) á klukkustund. Sólarhrings heilsuverndarmörk eru 50µg/m 3 svo að eins og staðan var kl. 10:00 voru loftgæði góð. Stofnunin mun áfram fylgjast með mælingum og miðla upplýsingum þar um.

Öskusýni frá Mýrdalssandi sem Jarðvísindastofnun HÍ lét Umhverfisstofnun í té var sent í kornastærðargreiningu hjá Nýsköpunarmiðstöð. Niðurstöður sýna að um fjórðungur kornanna eru svifryk, það er minna en 10 míkron.

Á myndum frá rafeindasmásjá Nýsköpunarmiðstöðvar sést að smæstu korn eru langt innan við 1µm og smjúga auðveldlega niður í lungnaberkjur. Brúnir gjóskukorna eru hvassar og eru þar af leiðandi ertandi í öndunarfærum. Að neðan má sjá myndir úr rafeindasmásjá af kornum úr gjóskunni

Umhverfisstofnun ítrekar því fyrri ábendingar um að ekki sé verið á ferðinni að óþörfu þar sem gjóskufalls gætir. Þeir sem þurfi að vera utandyra hafi grímu fyrir vitum og ráðlagt er að nota hlífðargleraugu. Á svæðum þar sem aska hefur fallið er einnig rétt að hafa varann á þar sem rykið þyrlast mjög auðveldlega upp.

Myndir úr rafeindasmásjá af rykkornum og svifryki

 

Svifryk úr gjósku frá Eyjafjallajöklli

Mynd af rykkornum úr gjóskunni frá Eyjafjallajökli - Nýsköpunarmiðstöð

Svifryki úr gjósku frá Eyjafjallajökli

Mynd af rykkornum úr gjóskunni frá Eyjafjallajökli - Nýsköpunarmiðstöð