Stök frétt

Umhverfisfræðsluráð og Landvernd boða til málþings um þjóðaráætlun um menntun til sjálfbærni. Málþingið fer fram á Grand Hótel þriðjudaginn 15. september kl. 13:00 til 16:00. Þátttaka tilkynnist með tölvupósti á postur@umhverfisraduneyti.is. Aðgangur er ókeypis.

Dagskrá málþingsins

  • Ávarp Svandísar Svavarsdóttur umhverfisráðherra.
  • Niðurstöður úttektar á menntun til sjálfbærni á Íslandi sem unnin er fyrir umhverfisfræðsluráð. Stefán Gíslason, Environice.
  • Umhverfislæsi – getum við lært af öðrum þjóðum? Andrés Arnalds, Landgræðslunni.
  • Kaffi.
  • Þjóðaráætlun um menntun til sjálfbærni – hvað þarf til? Mike Littledyke og Rose Littledyke.
  • Endurskoðun aðalnámskrár með sjálfbæra þróun í huga. Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra.
  • Pallborð og umræður.

Mike og Ros Littledyke starfa bæði við Menntavísindasvið University of New England í Ástralíu. Sérsvið þeirra er menntun til sjálfbærni og þau hafa fjallað mikið um leiðir til að auka umhverfisvitund nemenda á öllum skólastigum. Í fyrirlestri sínum munu þau m.a. kynna metnaðarfulla framkvæmdaáætlun Ástralíu (apríl 2009) um leiðir til að öll þjóðin lifi í sátt við umhverfið.

Hlutverk umhverfisfræðsluráðs er að stuðla að aukinni fræðslu um umhverfismál og sjálfbæra þróun til almennings og skóla. Samkvæmt ákvæði í framkvæmdaáætlun um sjálfbæra þróun í íslensku samfélagi er hlutverk ráðsins að hvetja til aðgerða, koma á samvinnu, samræma og stuðla að aukinni umhverfismennt í samvinnu við sveitarfélög, samtök áhugamanna um umhverfismál, samtök almennings, aðila vinnumarkaðarins og stofnanir. Eftirtaldir aðilar tilnefna fulltrúa í ráðið: Menntamálaráðuneytið, Samband íslenskra sveitarfélaga, Námsgagnastofnun, Kennaraháskóli Íslands, Samtök atvinnulífsins, Alþýðusamband Íslands, Neytendasamtökin og félagasamtök á sviði umhverfismála tilnefna einn sameiginlegan fulltrúa.