Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Stök frétt

Umhverfis- og orkustofnun hefur unnið tillögu að starfsleyfi fyrir Carbfix hf. fyrir geymslu koldíoxíðs á Hellisheiði, sbr.  33. gr. c. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Um er að ræða geymslu á allt að 106.000 tonnum af koldíoxíði (CO2) á ári, samtals 3.180.000 tonn af CO2 yfir 30 ára tímabil, á geymslusvæði sem staðsett er á jarðhitasvæðinu á Hellisheiði.

Í áliti Skipulagsstofnunar kemur fram að nauðsynlegt er að framkvæmdir við niðurdælingu þurfa að fara fram í skrefum. Þannig gefist svigrúm til að vinna úr gögnum og auka skilning á viðbrögðum svæðisins við niðurdælingu CO2 til geymslu í jarðlögum áður en til umfangsmikillar niðurdælingar kemur. Nauðsynlegt er að setja ákvæði starfsleyfið sem kveða á um tiltekna áfangaskiptingu niðurdælingarinnar eða að eingöngu verði veitt leyfi fyrir hluta niðurdælingar fyrst um sinn. Ákvarðanir um frekari niðurdælingu verði svo teknar á grundvelli niðurstaðna úr vöktun.  

Niðurstaða Umhverfis- og orkustofnunar eftir að hafa tekið tillit til álits Skipulagsstofnunar er sú að stofnunin setti auknar vöktunarkröfur á rekstraraðila. Vöktunaráætlunin sem lá til grundvallar við mat á umhverfisáhrifum hefur tekið miklum breytingum og gerðar eru ríkar kröfur til vöktunar í samræmi við lög um stjórn vatnamála nr. 36/2011 og reglugerð nr. 1430/2022 um geymslu koldíoxíðs. Umhverfis- og orkustofnun lítur svo á að kröfu Skipulagsstofnunar um áfangaskiptingu framkvæmdarinnar hafi verið fullnægt með því að umsækjandi hafi sótt um tæplega þriðjung fyrirhugaðs geymslumagns af koldíoxíði í umsókn sinni um starfsleyfi, og starfsemin því leyfð í þrepum. 

Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) skilaði áliti sínu á drögum að starfsleyfi þann 26. júní 2024, sbr. 9. gr. reglugerðar nr. 1430/2022 um geymslu koldíoxíðs í jörðu. Umhverfis- og orkustofnun hefur tekið tillit til athugasemda ESA og gert breytingar á leyfinu til samræmis við álitið.

Opið fyrir athugasemdir

Athugasemdir við starfsleyfistillöguna skulu vera skriflegar og sendar Umhverfis- og orkustofnun á netfangið uos@uos.is, merktar UST202301-351. Athugasemdir verða birtar við útgáfu.

Frestur til að skila inn athugasemdum er til og með 28. mars 2025.

Greinargerð mun fylgja starfsleyfi við útgáfu sbr. 6. gr. reglugerðar nr. 550/2018. 

Tengd skjöl