Stök frétt

Ljósmyndari: Jóhann Óli Hilmarsson

Holdafar rjúpna nú í haust er með ágætum. Fullorðnir fuglar eru í lakari holdum en í fyrra en engin munur er á holdafari unga milli áranna 2021 og 2022. Þetta sýna mælingar á 251 fuglum sem veiddir voru á Norðausturlandi fyrstu átta daga nóvembermánaðar.

Vísbendingar um færri unga

Fyrstu niðurstöður aldursgreininga gefa til kynna að sá viðkomubrestur sem mældur var á Norðausturlandi síðsumars hafi verið reyndin mun víðar á landinu. Í venjulegu ári eru algeng hlutföll unga í rjúpnastofninum á veiðitíma á bilinu 70-80%, en ungahlutfall var almennt lágt eða á bilinu 57-70% eftir landshlutum.  Samkvæmt þessu hefur viðkoma rjúpunnar verið almennt léleg 2022. 

Þann 20. desember 2022 höfðu aldursgreiningar á 1394 fuglum frá veiðitíma 2022 farið fram á Náttúrufræðistofnun Íslands. Þar af voru flestir fuglar af Norðausturlandi (626) og Austurlandi (275). Búist er við að alls verði um 2000 fuglar aldursgreindir. 

Betri veiði en á síðasta ári

Samkvæmt Áka Ármanni Jónssyni, formanni SKOTVÍS, sýna fyrstu niðurstöður úr könnun sem send var til rjúpnaveiðimanna að veiði hafi aukist frá fyrra ári og veiðimönnum gengið betur. Fyrstu niðurstöður benda til þess að hlutfallslega mesta aukning hafi verið á Vesturlandi.  

Veiðifréttir úr ýmsum landshlutum  

Veiðimaður á N-Austurlandi: 

„Það var meira af rjúpu en ég hafði reiknað með og við fjölskyldan erum komin með nóg í jólamatinn. Ég merkti breytt hegðunarmynstur hjá rjúpunum og veiddi stóran hluta á svæðum þar sem áður var lítið um rjúpur. Tel að veðurfar gæti spilað inn í.“

Veiðimaður á N-Vesturlandi:

„Árið í ár er mun betra en árið 2021, en þá hætti ég að ganga til rjúpna snemma á tímabilinu þar sem lítið sem ekkert var að fá. Í ár hefur gengið nokkuð vel og ekki óalgengt að sjá nokkra fugla saman í hópi. Veiðimenn á svæðinu hafa margir veitt vel.“

Veiðimaður á Austurlandi:

„Tímabilið í ár hefur gengið mun betur en ég þorði að vona. Það var mun meira af fugli á mínum veiðisvæðum samanborið við árið 2021.“

Veiðimaður á Egilsstöðum:

„Veiðimaður á Egilsstöðum taldi að tíðarfar varð til þess að færri fóru til veiða á Austurlandi. Nokkuð af fugli þegar vel viðraði.“

Veiðimenn á Suðurlandi: 

„Við sáum ekki mikið fyrsta daginn en slatta í Austurdal á sunnudeginum en ekkert hægt að eiga við hann út af styggð. Fórum svo á Hrunamannaafrétt, skutum þar 3 og sáum 3 til viðbótar. Hittum nokkrar skyttur 6 manns og þeir sáu eina. Þannig ekkert meira þarna en venjulega enda veiðist alltaf best þarna fyrstu veiðihelgina.“

Annar úr sama hóp:

„Ég held ég hafi sjaldan séð svona mikið af fugli eins og ég gerði fyrsta daginn - en hann var nokkuð styggur og því veiddist engin ósköp. Hina dagana fannst mér óvenju mikið af sporum og bælum - þannig að mín tilfinning er að fjöldi rjúpna á okkar svæði hafi verið talsverður. Einnig hef ég séð meira af fugli inni á sumarbústaðarsvæðinu undir Þríhyrningi heldur en oft áður á þessum árstíma.“