Stök frétt

Mynd: Jed Owen - Unsplash

Að undanförnu hefur borið á því að veitingastaðir auglýsi rétti úr rjúpnaafurðum á jóla- og villibráðarhlaðborðum.

Umhverfisstofnun vill koma því á framfæri að það er óheimilt að flytja út, bjóða til sölu eða selja rjúpur og rjúpnaafurðir. Með sölu er átt við hvers konar afhendingu gegn endurgjaldi. Samkvæmt lögum 64/1994 um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og spendýrum, varðar brot við sölubanni sektum eða fangelsi allt að 2 árum og sviptingu skotvopna- og veiðileyfis. Gera má lögaðila sekt fyrir brot gegn sölubanni. Um refsiábyrgð lögaðila fer samkvæmt almennum hegningarlögum.

Þess ber þó að geta, að sölubannið nær ekki til innfluttra rjúpna og rjúpnaafurða og er sala þeirra heimil sem fyrr. Í þeim tilfellum þarf innflytjandi og söluaðili m.a. að tryggja að rjúpan eða rjúpnaafurðirnar séu þannig merktar að fram komi frá hvaða landi þær séu upprunnar, t.d. á matseðli eða í innihaldslýsingu.