Stök frétt

Árum saman lagðist Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull í vetrardvala myrkustu mánuði ársins og vaknaði með náttúrunni til vorsins ár hvert jafnt með farfuglum sem og áhugasömum gestum, segir Jón Björnsson, þjóðgarðsvörður. Mikil umbylting hefur átt sér stað í ferðamennsku undanfarin ár og hefur Þjóðgarðurinn ekki farið varhluta af því. Nú sækir fjöldi gesta svæðið heim alla daga ársins.

Þjóðgarðurinn var stofnaður 28. júní 2001 og er því á unglingsaldri. Stofnun hans átti sinn aðdraganda og drógu fjölmargir aðilar vagninn á þeirri vegferð. Þjóðgarðurinn þekur 170 km2 svæði vestast á Snæfellsnesi og fellur Snæfellsjökull allur innan hans. Við stofnun voru þjóðgarðinum sett þrjú meginmarkmið;  vernd sérstæðrar náttúru svæðisins, vernd sögulegra minja og að auðvelda gestum að sækja svæðið heim sér til fræðslu og upplifunar. Þjóðgarðurinn er rekinn undir hatti Umhverfisstofnunar.

Sérstakt gildi og hvatning

Þjóðgarðar hafa sérstakt gildi í huga þjóða sem ferðamanna í veraldarflakki sínu. Garðarnir státa af helstu náttúruperlum viðkomandi þjóða, tign og fegurð og vekja gestum sterka upplifun og minningar að sögn þjóðgarðsvarðar. Þeir eru jafnframt hvatning til gesta að huga vel að náttúrunni og efla vilja þeirra til náttúruverndar.

Áhrif á heimabyggð

Þjóðgarðar hafa einnig mikil áhrif á nærsamfélag sitt, þeir auka stolt heimamanna til svæðanna og skapa tækifæri til atvinnusköpunar og bættrar búsetu, segir Jón þjóðgarðsvörður. Jafnframt hafa þjóðgarðar efnahagslegan ávinning fyrir eigin þjóð, enda draga þeir fjölda gesta sín. Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull er engin undantekning á því og sækir tæp hálf milljón gesta garðinn heim á ári nú.

Fjöldinn mikil áskorun

Hinn mikli fjöldi ferðamanna sem kemur árlega í Þjóðgarðinn er stærsta núverandi áskorun starfsmanna, að sögn þjóðgarðsvarðar. Tryggja þarf að gestir komist auðveldlega í gegnum garðinn og að upplifun og nauðsynleg þjónusta sé til staðar og virki. Fyrstu árin eftir stofnun þjóðgarðsins komu um 30.000 gestir í þjóðgarðinn árlega. Hélst sá fjöldi lítt breyttur árum saman en uppúr 2010 fór ferðamönnum fjölgandi og frá 2014 hefur fjölgunin verið nær 30% á ári. Þannig var fjölgunin milli 2016 og 2017 tæplega 90.000 gestir á einu ári. „Það er því hægt að tala um flóðbylgju ferðamanna,“ segir Jón. Sannarlega reyni slík fjölgun mjög á allt svæðið og innviði þess, jafnt innan sem utan þjóðgarðsins. Einnig hafi fjölgunin valdið því að mun meiri tími fari í að sinna gestum og þörfum þeirra en náttúru og minjum.

Flestir á hraðferð

Á ungdómsárum Þjóðgarðsins var mikið lagt upp úr gönguleiðum, enda gestir þá yfirleitt á hægu ferðalagi, þar sem nægur tími gafst til að skoða landið. Í dag einkennir hraði og mikil yfirferð flesta ferðamenn og stoppa þeir stutt við að sögn þjóðgarðsvarðar. Starfsmenn Þjóðgarðsins hafa ráðstafað allnokkrum tíma í að telja fjölda gesta, ferðalaleiðir og dvalartíma undanfarið. Handtalið hefur verið við þjóðgarðsmörk bæði að norðan og sunnan, við einstaka staði innan þjóðgarðsins og daglega eru gestir taldir á Gestastofunni á Malarrifi. Jafnframt hafa handtalningar verið gráðaðar saman við teljara Vegagerðarinnar á Fróðárheiði og við Hraunsmúla. Niðurstaða mælinganna er að flestir sæki garðinn heim á einkabílum (bílaleigubílum). 45% gesta aki inn að norðanverðu og 55% að sunnan. Þeir stoppi að meðaltali tvær klukkustundir í Þjóðgarðinum og skoði að jafnaði þrjá staði innan hans. Um 15% gesta koma við á Gestastofunni á Malarrifi. Fjölgun gesta milli áranna 2010 til og með 2013 var um 7% á ári. Milli áranna 2014 til 2017 var nær 30% árleg fjölgun. Hugsanlega er nú að hægja á fjölgun ferðamanna, því fyrstu fjóra mánuði þessa árs (2018) er fjölgunin 9% frá fyrra ári.

Fáir en vinsælir staðir

Hinn stutti dvalartími gesta hefur breytt miklu um nýtingu og ástand svæðisins. Göngustígarnir sem voru stikaðir og hannaðir til að mæta hægri ferðaþjónustu liðins tíma eru lítt gengnir í dag, að sögn þjóðgarðsvarðar. Þess í stað eru fáir en vinsælir áfangastaðir aðdráttarafl Þjóðgarðsins, enda bíður stuttur ferðatími vart upp á fleiri valkosti fyrir gesti. „Það má því segja að sá kostur fylgdi stórauknum fjölda og hraða ferðamanna í Þjóðgarðinn að viðkomustöðum fækkaði samhliða og álag sem fylgdi var á takmörkuðum svæðum. Eflaust hefði orðið erfitt að taka við öllum þeim fjölda ferðamanna sem koma í dag ef þeir dreifðust víða líkt og á árdögum Þjóðgarðsins,“ segir Jón Björnsson.

Hann nefnir að fyrri gestir hafi oft undirbúið ferð sína í þjóðgarðinn af kostgæfni, enda hafi þeir oft dvalið lengi í friðlandinu. Nútímagestur dvelji sem fyrr segir, mun skemur, hann sé síður undirbúinn og vilji skoða sem flest á stuttum dvalartíma sínum. Jón segir að lokum: „Eflaust eru ódýr flugfargjöld einn þeirra þátta sem mótað hefur ferðahegðun. Hækkun fargjalda eða breytingar á ferðavenjum gætu því haft umtalsverð áhrif á ferðamennsku á svæðum líkt og í Þjóðgarðinum Snæfellsjökli. Það er því mikilvægt að starfsmenn hafi góða yfirsýn á gesti og geti brugðist hratt við ef breytingar verða á auðlindinni „gestir“.“

Mynd: Jón Björnsson við afgreiðslustörf á Gestastofu, Malarrifi.