Stök frétt

Náttúrustofa Norðausturlands hefur samið við Umhverfisstofnun um rannsóknir á plasti í fýlum sem hluta af staðlaðri vöktun á plastmengun á OSPAR svæðinu.

Frá þessu er greint á vefsíðu Náttúrustofu Norðausturlands. OSPAR fór að nota plast í fýlum sem vistfræðilegan metil á plastmengun hafsins árið 2009. Þá höfðu rannsóknir á plastmengun í fýlum staðið yfir frá níunda áratug síðustu aldar.

Enn á eftir að undirrita samninginn milli UST og NNA en samkvæmt því er fram kemur á heimasíðu NNA er fýll talinn mjög ákjósanleg tegund til að rannsaka og vakta plastmengun í sjó. “Helstu ástæður þess er að fýlar afla sér fæðu eingöngu á sjó og sjaldan nærri landi. Þeir eiga erfitt með að kafa og því afla þeir sér fæðu mest sem næst yfirborði sjávar. Komið hefur í ljós að fýlar gleypa talsvert af plasti og eru nokkrar ástæður taldar fyrir því. Einna helst er talið að sumt plast líkist fæðu, plast geti verið í mögum dýra sem fýllinn étur (úrgangur frá fiskibátum) og að plast í nágrenni fæðu geti borist í fýla við fæðuupptöku.”

Fýlar sem notaðir eru í þessa vöktun eru fyrst og fremst fýlar sem finnast dauðir á ströndum Vestur-Evrópu. Einnig hafa verið notaðir fýlar sem drepast við að festast í veiðarfærum fiskiskipa og –báta og er stefnt að því að nota þá aðferð hér á landi.

Myndina tók Aðalsteinn/Náttúrustofu Norðausturlands, en hún sýnir innihald plasts í maga eins fýls.

Sjá nánar á vefsíðu NNA hér.