Stök frétt

Lárus Kjartansson, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun sem hefur umsjá með Gullfossi og Geysi, segir að slysatíðni gesta sé hlutfallslega á niðurleið við þessar tvær þekktu náttúruperlur Íslendinga. Hann segir að nýi Gullfoss-stiginn hafi vakið mikla lukku og auki öryggi ferðamanna.

Lárus hefur langa reynslu af landvörslu. Hann segist hafa orðið hugsi fyrir nokkrum árum þegar göngustígur var lagður alveg við bjargbrún við Hraunfossa. Þá hafi hann heyrt athugasemd frá þýskri ferðakonu sem spurði hvort Íslendingar legðu meira upp úr því að gæta náttúrunnar en öryggis ferðamanna! Lárus telur að kannski sé hægt að læra eitthvað af þessari spurningu. Skemmst er að minnast þess að allmargir erlendir ferðamenn hafa látist hér á landi í ýmsum óhöppum þetta árið. Oft má þó rekja slysin til óaðgæslu eða brots á reglum.

„Stundum er betra að gera ekki neitt en að aðhafast án þess að ígrunda hutina nægilega,“ segir Lárus.

Hann segir dæmi um að ráðist hafi verið í framkvæmdir á viðkvæmum og varasömum svæðum án þess að leita eftir kunnáttu heimamanna og landvarða sem oft þekki best til. Fúsk geti reynst dýrt. Ýmsar ófullkomnar framkvæmdir við ferðamannastaði hérlendis megi skýra með peningaskorti.

„Þá er stokkið af stað of fljótt og jafnvel án aðkomu fagfólks. Umhverfisstofnun hefur í langflestum tilvikum staðið sig mjög vel en við þurfum stundum að stíga varlega til jarðar þegar hrópað er á skyndiframkvæmdir í kjölfar óhappa. Fyrst og fremst þarf að hlusta vel á fólkið sem þekkir svæðin best.“