Stök frétt

Með úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála frá í gær er fellt úr gildi starfsleyfi fyrir sjókvíaeldi í innanverðu Ísafjarðardjúpi.

Umhverfisstofnun bendir á að þau atriði sem tilgreind eru sem helstu neikvæðu áhrif fyrirhugaðs fiskeldis í innanverðu Ísafjarðardjúpi (aukin hætta á fisksjúkdómum) falla undir verksvið Matvælastofnunar. Ekki koma fram ábendingar um efnislega annmarka á starfsleyfi Umhverfisstofnunar.

  • Skylda Umhverfisstofnunar til að útbúa flokkunarkerfi um álag af völdum mengunar af sjávarbotni kemur fram í 11. gr. laga um stjórn vatnamála. Kveðið var á um það í starfsleyfinu sem nú hefur verið fellt úr gildi að rekstraraðila bæri að sjá til þess að vatnsgæðum í viðtaka hrakaði ekki og tekið fram að heimilt væri að endurskoða leyfið s.s. ef ástand vatns færi hrakandi vegna rekstrarins og hætta væri á að það félli niður um flokk.
  • Fram kemur í úrskurðinum að formgallar hafi verið á málsmeðferð Umhverfisstofnunar.
    • Áhersla er lögð á að fram komi með skýrum hætti við útgáfu starfsleyfis afstaða stofnunarinnar til mats á umhverfisáhrifum. Umhverfisstofnun hefur bætt úr þessu við afgreiðslu nýrri starfsleyfa. Úrskurðarnefndin tekur þó fram að hún dragi ekki í efa að álit Skipulagsstofnunar hafi verð lagt til grundvallar starfsleyfinu.
    • Þegar hefur verið bætt úr öðrum helstu ábendingum sem fram koma í úrskurðinum í nýrri ákvörðunum stofnunarinnar varðandi málsmeðferð og ættu önnur starfsleyfi því ekki að vera í uppnámi.
  • Ljóst er að ábending úrskurðarnefndarinnar varðandi hvaða regla gildi um fjarlægðarmörk byggir á veiðihagsmunum fremur en lífrænu álagi. Umhverfisstofnun leitaði leiðbeininga Matvælastofnunar þegar tekin var afstaða til þessa atriðis til að gæta samræmis við lög um fiskeldi.
  • Úrskurðurinn gefur að mati Umhverfisstofnunar tilefni til að skýra nánar hlutverk einstakra stofnana hvað varðar fiskeldi en stofnunin hefur þegar komið á framfæri ábendingum þar um til nefndar um stefnumótun í fiskeldi sem starfar á vegum atvinnu- og nýsköpunarráðuneytisins.