Stök frétt

Ráðherrar í ríkisstjórn Íslands skrifuðu í dag undir samstarfsyfirlýsingu um gerð aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum sem liggja skal fyrir í lok ársins.

Markmið áætlunarinnar eins og fram kemur í tilkynningu er að Ísland geti staðið við skuldbindingar sínar skv. Parísarsamningnum í loftslagsmálum til 2030 með því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og auka bindingu koldíoxíðs úr andrúmslofti.

Í samstarfsyfirlýsingu er rætt um samstillt átak innan stjórnkerfisins og samvinnu stjórnvalda og atvinnulífs, félagasamtaka og síðast en ekki síst almennings.

Ríkisútvarpið hefur eftir Björt Ólafsdóttur umhverfis- og auðlindaráðherra að engan tíma megi missa. Markmiðið sé að Ísland geti staðið við skuldbindingar skv. Parísarsamningnum. Samstarfsaðgerðin hafi mjög mikla þýðingu. Öll ríki hafi áttað sig á að losun og hlýnun sé stærsta ógn samtímans. Ráðherra segist líta það mjög alvarlegum augum ef Ísland standi sig ekki. Við höfum verið of værukær en ætlunin sé nú að breyta því „af miklum krafti“.

Þema ársfundar Umhverfisstofnunar næsta föstudag, 12. maí, verður loftslagsmál og sú ögurstund sem mannkynið stendur frammi fyrir.