Stök frétt

Eins og fram kom í frétt á vef Umhverfisstofnunar 12. júlí 2016 tók Efnastofnun Evrópu (ECHA) til sérstakrar skoðunar hvort heilsufarsleg áhætta gæti stafað af notkun endurunnins gúmmíkurls sem fylliefnis í gervigrasi. Sérstaklega var hugað að mögulegri áhættu fyrir notendur, að börnum meðtöldum, og starfsfólk sem vinnur við uppsetningu og viðhald slíkra valla. ECHA hefur nú lokið mati sínu og komist að þeirri niðurstöðu að notkun endurunnins gúmmíkurls sé ekki áhyggjuefni. Hér að neðan er samantekt á því sem fram kemur í frétt ECHA um málið.

Eins og fram hefur komið eru ýmis hættuleg efni til staðar í endurunnu gúmmíkurli. Má þar nefna fjölhringa arómatísk vetniskolefni (PAH), málma og þalöt auk rokgjarnra lífrænna efnasambanda. Í ljósi þessa tók ECHA til skoðunar möguleg váhrif af snertingu við húð, inntöku og innöndun. Á forsendum fyrirliggjandi ganga komst ECHA sem fyrr segir að þeirri niðurstöðu að notkun kurlsins sé ekki áhyggjuefni. Út úr matinu komu meðal annars eftirfarandi niðurstöður:

  • Miðað við styrk PAH í gúmmíkurli á evrópskum íþróttavöllum er ekki ástæða til að hafa áhyggjur af aukinni krabbameinsáhættu.
  • Styrkur málma í kurlinu er lægri en krafa er gerð um í núverandi löggjöf um málminnihald leikfanga og er því ekki áhyggjuefni.
  • Önnur efni sem skoðuð voru s.s. þalöt, bensóþíasól og metýlísóbútýlketón finnast í minna magni en svo að þau hafi áhrif á heilsu.
  • Greint er frá að þegar vellir eru innanhúss geti rokgjörn efni úr kurlinu valdið ertingu í augum og á húð.

Í þeim rannsóknum sem lágu til grundvallar á mati ECHA reyndust styrkir PAH í endurunnu gúmmíkurli vera vel innan marka REACH-reglugerðarinnar fyrir styrk svokallaðra CMR-efna í neytendavörum. (Til CMR-efna teljast efni sem eru krabbameinsvaldandi, hafa stökkbreytandi áhrif á kímfrumur eða eituráhrif á æxlun.)

Í ljósi óvissuþátta sem komu fram í mati stofnunarinnar leggur ECHA til eftifarandi aðgerðir:

  • Að skoðað verði hvort breyta eigi REACH reglugerðinni til að tryggja að eingöngu sé markaðssett endurunnið gúmmíkurl með afar lágan styrk PAH og annarra hættulegra efna.
  • Að eigendur og rekstraraðilar valla með gúmmíkurli, jafnt innanhúss sem utan, láti reglulega mæla styrk PAH og annarra efna í kurlinu og geri niðurstöður mælinganna aðgengilegar fyrir áhugasama á auðskiljanlegu formi.
  • Að framleiðendur endurunnins gúmmíkurls og hagsmunasamtök þeirra þrói leiðbeiningar til að aðstoða innflytjendur og rekstraraðila við að meta styrk efna í kurlinu.
  • Að íþróttasamtök í Evrópu , í samstarfi við framleiðendur endurunnins gúmmíkurls, tryggi aðgengi leikmanna og almennings að auðskiljanlegum upplýsingum sem tengjast öryggi við notkun kurlsins á íþróttavöllum.
  • Að eigendur og rekstraraðilar íþróttavalla innanhúss þar sem notað er endurunnið gúmmíkurl tryggi fullnægjandi loftræstingu.

Auk ofangreinds mælir ECHA með því leikmenn á gervigrasvöllum hugi ætíð að hreinlæti í kjölfar notkunar vallanna.

Hér að neðan er slóð að frétt ECHA um skýrsluna og þar má jafnframt nálgast skýrsluna í heild sinni:
https://echa.europa.eu/-/recycled-rubber-infill-causes-a-very-low-level-of-concern