Stök frétt

Umhverfisstofnun hóf að vakta rusl á ströndum hér á landi sumarið 2016. Vaktað var fyrirfram afmarkað svæði á hverri strönd og er megin tilgangur vöktunarinnar að reyna að finna út hver uppruni ruslsins er, meta það magn sem safnast fyrir yfir ákveðið tímabil og að fjarlægja ruslið. Um er að ræða strandir á eftirfarandi stöðum: Surtsey, Vestmannaeyjar, Bakkavík á Seltjarnarnesi, Búðavík á Snæfellsnesi og Rauðasand á sunnanverðum Vestfjörðum. Umhverfisstofnun er í samstarfi við sveitarfélög og/eða landeigendur á þessum svæðum um verkefnið. Sumarið 2017 verður Rekavík bak Höfn á Hornströndum bætt við og hugsanlega ströndum á fleiri svæðum.

Strendurnar verða vaktaðar reglulega þar sem allt rusl verður flokkað, talið og skráð í samræmi við leiðbeiningar þess efnis frá framkvæmdstjórn OSPAR. OSPAR er samningur er um verndun hafrýmis Norð-Austur Atlantshafsins sem Íslendingar hafa staðfest. 

Fyrstu niðurstaðna er að vænta í lok ársins og verða þær birtar í samantektarskýrslu ásamt því sem þeim verður skilað inn í gagnagrunn OSPAR.