Stök frétt

Um miðjan júnímánuð fór Umhverfisstofnun í eftirlit með bönnuðum parabenum í snyrtivörum sem framleiddar eru í Kína, Bandaríkjunum og Kanada og eru seldar hér á landi. Fimm gerðir parabena hafa verið bönnuð í snyrtivörum síðan í júlí á síðasta ári. Skoðuð voru sýnishorn af snyrtivörum á borð við augnfarða, húðkrem, sjampó og hárnæringu hjá 10 innflutningsaðilum, sem fluttu inn mesta magnið frá þessum löndum. Kannað var hvort snyrtivörurnar innihéldu bönnuð paraben, þ.e. benzýl-, isóbútýl-, isópróbýl-, pentýl- og fenýlparaben.  Í dag er einungis leyfilegt að framleiða og selja snyrtivörur sem innihalda eftirfarandi paraben: bútýl-, etýl-, metýl- og própýlparaben.

Paraben geta farið inn í húðina og haft hormónahermandi áhrif í vefjum líkamans með því að líkja eftir estrógeni og öðrum hormónum. Í snyrtivörum eru notaðaðar níu gerðir parabena sem rotvarnarefni, en fimm þeirra eru bönnuð.

Í eftirlitinu kom í ljós að engar af þeim 45 snyrtivörum sem skoðaðar voru innihéldu bönnuð paraben. Það er jákvæð vísbending um stöðuna hvað þetta varðar, þar sem ekki er búið að banna þessi sömu paraben í framleiðslulandinu. Umhverfisstofnun hvetur fólk að hafa augun opin og hafa samband við stofnunina ef það verður vart við snyrtivöru sem inniheldur bönnuð paraben.

Hægt er að nálgast niðurstöður eftirlitsins hér.